Arnór reyndist Geir erfiður

Arnór Þór Gunnarsson fer vel af stað.
Arnór Þór Gunnarsson fer vel af stað. AFP

Þýska 1. deildin í handbolta hófst í kvöld og voru Íslendingar í eldlínunni. Geir Sveinsson stýrði Nordhorn í fyrsta skipti er liðið fékk Arnór Þór Gunnarsson og félaga í Bergischer í heimsókn.

Arnór átti góðan leik, skoraði sex mörk, og var markahæstur ásamt Jeffrey Boomhouwer í 26:21-sigri Bergischer. Ragnar Jóhannsson komst ekki á blað hjá Bergischer. 

Bjarki Már Elísson fer vel af stað með Lemgo. Hann skoraði sjö mörk í 32:28-sigri á Wetzlar á útivelli. Bjarki gekk í raðir Lemgo frá Füchse Berlin fyrir leiktíðina og var að spila sinn fyrsta deildarleik með liðinu. 

Oddur Gretarsson átti stóran þátt í að tryggja Balingen sæti í efstu deild á síðustu leiktíð. Akureyringurinn var markahæsti maður liðsins með fjögur mörk í 26:38-tapi fyrir Magdeburg á útivelli. 

mbl.is