„Sóknin okkar var ansi stirð“

Stefán Árnason kallar á sína menn í kvöld.
Stefán Árnason kallar á sína menn í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Stefán Árnason, annar þjálfara KA í Olís-deild karla í handbolta, var fenginn í viðtal eftir að KA hafði tapað 23:26 gegn Haukum í kvöld. KA spilaði nokkuð vel á löngum köflum í leiknum en Haukarnir sýndu styrk sinn á lokakaflanum og sigldu þá fram úr.

Þið voruð grátlega nálægt því að hafa eitthvað með ykkur úr þessum leik.

„Þetta er annar leikurinn í röð þar sem við eigum klárlega séns á að fá eitthvað út úr leik gegn sterku liði og það þrátt fyrir að við spilum ekki nægilega vel. Í þessum leik eru aðeins of langir kaflar þar sem við náum ekki að spila nógu vel, en svo mun betri kaflar inn á milli. Þrátt fyrir það eigum við góða möguleika. Það er bara grátlegt hvernig við misstum dampinn í stöðunni 19:17 og það gerðist líka á örstuttum tíma. Við erum í fínum málum en svo allt í einu lentir þremur mörkum undir. Það náðum við aldrei að vinna til baka og þessi kafli réð því í raun úrslitum leiksins.“

En er það ekki einmitt staðreynd málsins að gegn svona öflugu liði eins og Haukum þá verður meira að ganga upp.

„Jú, það þarf nánast allt að ganga upp. Þeir eru bara ógnarsterkir og náðu að búa til kjörstöður í sóknunum sínum sem skiluðu miklu. Á meðan vorum við í erfiðleikum með að skora. Sóknin okkar var ansi stirð í þessum leik og þá er bara erfitt að vinna.“

Það var samt margt gott í leik KA. Hvað ert þú ánægðastur með?

„Fyrst og fremst getum við verið ánægðir með hjartað í liðinu og karakterinn. Við vorum skelfilegir í byrjun og lentum 1:6 undir en það orsakaði alls engan óróa. Við héldum bara áfram og unnum okkur hægt og bítandi inn í leikinn. Við vorum með jafna stöðu í hálfleik og náðum svo forustunni. Varnarleikurinn var mjög fínn lungann úr leiknum og við fundum ágætis lausnir á því sem Haukarnir voru að gera í sókninni. Það var bara í lokin sem við náðum ekki að stoppa þá og finna lausnirnar.“

Nú eruð þið stigalausir eftir tvo hörkuleiki. Þið andið bara rólega.

„Við erum alveg rólegir. Það var vitað fyrir að fyrstu tveir leikirnir okkar yrðu mjög erfiðir. Það sem við tökum úr þessu er að við hefðum hæglega getað fengið stig í báðum leikjunum og hefðum, með örlítið betri leik, getað unnið í dag. Við sýnum það að við eigum fullan séns í öll liðin og nú er það okkar að taka næsta skref og fá eitthvað út úr þessum leikjum. Við erum ekki langt frá því, þrátt fyrir að spila ekki neitt sérstaklega vel. Með heilsteyptari frammistöðu  munum við vinna svona leiki,“ sagði Stefán að skilnaði.

mbl.is