FH-ingar sluppu fyrir horn

Birgir Már Birgisson var drjúgur í liði FH í kvöld.
Birgir Már Birgisson var drjúgur í liði FH í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

FH vann nauman sigur á Fjölni, 28:27, í sveiflukenndum leik í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Kaplakrika í kvöld þar sem nýliðarnir úr Grafarvogi náðu um tíma fimm marka forystu í fyrri hálfleiknum.

Staðan í hálfleik var 16:13, Fjölni í hag, en FH var búið að jafna eftir tíu mínútur í síðari hálfleik. Í kjölfarið sigldu Hafnfirðingar fram úr og virtust með leikinn í höndum sér þegar þeir voru komnir í 25:20. Fjölnispiltar voru hins vegar seigir og minnkuðu muninn í 27:26 og síðan 28:27 á lokasprettinum en FH-ingar héldu út og innbyrtu sigurinn.

FH-ingar eru þá með 7 stig eftir sex umferðir og eru í sjötta sætinu. Fjölnismenn eru áfram í níunda sætinu með 3 stig.

Jakob Martin Ásgeirsson, Ásbjörn Friðriksson og Birgir Már Birgisson skoruðu 6 mörk hver fyrir FH og Ágúst Birgisson 5.

Breki Dagsson skoraði 11 mörk fyrir Fjölni, Goði Ingvar Sveinsson 5 og Bergur Elí Rúnarsson 4.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert