Björn einn af máttarstólpum liðsins

Erlingur Birgir Richardsson, þjálfari ÍBV.
Erlingur Birgir Richardsson, þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var virkilega ánægður með sigur sinna manna gegn HK í dag. ÍBV hafði ekki unnið í fimm leikjum áður en HK-ingar flugu til Eyja og freistuðu þess að vera fjórða liðið í röð til að leggja ÍBV að velli í Eyjum.

„Ég er ánægður með sigurinn, ánægður með varnarleikinn í fyrri hálfleiknum heilt yfir, stóðum hann vel og fengum fullt af hraðaupphlaupum. Sóknarleikurinn heilt yfir líka vel útfærður, við vorum nokkuð skynsamir, HK-menn halda alltaf áfram og gerðu áhlaup. Þeir gáfust aldrei upp og það var verðugt verkefni að klára þennan leik með sigri.“

Eyjamenn unnu einn risastóran kafla í fyrri hálfleik 13:1 og það skóp sigurinn í raun. „Þá stóðum við varnarleikinn vel og fiskuðum bolta sem gáfu okkur hraðaupphlaup.“

Var Erlingur farinn að hugsa í stöðunni 4:6 fyrir gestina að þetta yrði enn einn leikurinn sem myndi fara illa?

„Nei, það hefði verið of snemmt í þeirri stöðu. Auðvitað vill maður alltaf vera með forystuna í leiknum og halda henni, það stóð stutt yfir og við náðum strax tökum á leiknum. Varnarleikurinn var sérstaklega góður og þá kom Björn Viðar mjög sterkur inn til að hjálpa okkur að ná þessari forystu. 13 skot varin, það er nokkuð gott.“

Björn Viðar Björnsson hefur breyst mikið frá því að hann kom inn sem neyðarlausn í byrjun síðustu leiktíðar.

„Hann er í þessu af fullri alvöru, þó svo að í byrjun hafi hann verið fenginn inn í þetta til að hjálpa okkur en í dag er hann að æfa svakalega vel og gefur allt í þetta. Hann er einn af máttarstólpum liðsins.“

Spil Eyjamanna var virkilega gott í dag og voru leikmenn alltaf að leita að betra færi, Erlingur tók undir það.

„Mér fannst sóknarleikurinn nokkuð vel útfærður af okkar hálfu, það hefur verið að hiksta aðeins hjá okkur en við náðum að vera nokkuð klókir og setja upp þær stöður sem við vildum, það gekk vel,“ sagði Erlingur en skotdreifing Eyjamanna var mun meiri í dag en upp á síðkastið hefur hún verið nokkuð einhæf.

„Það sem gerist líka er að Róbert bætist við mannskapinn og við höfum þá fleiri til að taka þátt í sóknarleiknum, það hefur skilað sér í því að þetta dreifist aðeins betur. Fannar er að stíga upp úr meiðslum og fékk sínar 15 mínútur í dag, það var fínt að koma því af stað. Næsti leikur er síðan bikarleikur sem við þurfum að einbeita okkur að.“

Kristján Örn Kristjánsson skoraði 11 mörk úr 11 skotum Erlingur hlýtur að vera ánægður með hann.

„Mér fannst hann líka vera að velja rétt, hann valdi réttu augnablikin til að fara í skotin og réttu augnablikin til að koma boltanum áfram, maður sá að hann komst í gegnum leikinn án þess að vera að pústa of mikið. Hann áttaði sig vel á því hvenær hann þyrfti að gefa í og hvenær hann þyrfti að slaka á. Hann stóð varnarleikinn líka vel.“

Eyjamenn eru með meiðslalista og þar eru stór nöfn eins og Theodór Sigurbjörnsson, Sigurbergur Sveinsson og Grétar Þór Eyþórsson. Erlingur sagði að styst væri í Theodór, síðan ætti Grétar að byrja að æfa eftir áramót og Sigurbergur eitthvað seinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert