„Erum hálfgerðir kjúllar ennþá“

Sandra Erlingsdóttir skoraði 5 mörk fyrir Val í dag.
Sandra Erlingsdóttir skoraði 5 mörk fyrir Val í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sandra Erlingsdóttir, leikstjórnandi Vals, sagði reynslu leikmanna Fram hafa haft mikið að segja þegar liðin mættust í toppslag í Olís-deildinni í handknattleik í dag þar sem Fram hafði betur 24:19 og er í efsta sæti deildarinnar. 

Að loknum fyrri hálfleik var staðan 11:10 en Fram skoraði fyrstu fjögur mörkin í seinni hálfleik. „Mér fannst við missa hausinn þegar korter var búið af seinni hálfleik. Þá vorum við bara þremur mörkum undir en það var engin barátta í liðinu. Þær hafa reynsluna en ekki við og það spilar inn í,“ sagði Sandra en Valsliðið átti á köflum erfitt uppdráttar í sókninni en vörnin var ágæt. 

„Við brenndum af tuttugu og átta skotum. Kannski fór var það stærsta ástæðan fyrir þessu. Í vetur hefur það verið þannig hjá okkur að sóknin hefur verið verri en vörnin. Reyndr á síðasta tímabili síðast. Erfitt er að segja hvers vegna en þetta var alla vega ekki okkar dagur í dag.“

Fram hefur þriggja stiga forskot á Val á toppi deildarinnar og hefur unnið tíu af ellefu leikjum sínum. Gefa þessi úrslit góða mynd af því hvar liðin eru stödd á þessum tímapunkti. „Já já það má alveg segja það. Þær hafa miklu meiri reynslu og við notuðum marga unga leikmenn í dag. Þær eru að öðlast reynslu sem er mjög mikilvægt. Við hinar erum heldur ekkert gamlar. Það gleymist stundum að við erum hálfgerðir kjúllar ennþá,“ sagði Sandra Erlingsdóttir leikmaður Vals við mbl.is í Safamýrinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert