„Þetta var mjög skrýtinn leikur“

Stefán Árnason og Jónatan Magnússon fylgjast með í dag.
Stefán Árnason og Jónatan Magnússon fylgjast með í dag. Ljósmynd/Þórir

Stefáni Árnasyni var greinilega létt eftir að KA hafði unnið Fjölni í Olís-deild karla í dag. KA var yfir í leiknum frá upphafi til enda ef undanskilin eru nokkrar mínútur þegar staðan var jöfn. KA skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og vann 35:32.

Eftir fjögur töp í röð í deildinni var þá ekki það eina sem skipti máli í dag að vinna.

„Það er hárrétt hjá þér. Það var bara að ná í þessi tvö stig, sama hvernig við myndum fara að því. Fyrir leikinn bjóst ég ekki við að við myndum skora 35 mörk. Kannski er það til marks um það að sóknin okkar sé að braggast. Þetta var mjög skrýtinn leikur og Fjölnismenn voru afar erfiðir. Það var mjög erfitt að eiga við þá og hrista þá af sér. Við náðum þó undir lokin að fara enn og aftur fram úr þeim. Mér fannst við vera betri í leiknum, svona heilt yfir.“

Það hefur eflaust tekið á ykkur þjálfarana að horfa á leikinn. Það voru miklar sveiflur og þegar allt virtist í blóma þá hvarf forskotið á augabragði. Það gerðist nokkrum sinnum hjá ykkur.

„Þetta var mjög sveiflukennt. Við vorum alveg með þá í fyrri hálfleik. Þeir koma til baka, held ég tvisvar en við stingum svo af fyrir hálfleik. Við vorum með fimm mörk á þá í hálfleik. Síðan bara jafna þeir leikinn strax í seinni hálfleiknum. Við náum samt að halda yfirhöndinni, sem er mikilvægt. Við töluðum um það allan seinni hálfleikinn þegar vörnin var ekki að virka að við þyrftum fimm góðar mínútur til að klára þetta og þær mínútur komu á smá kafla í lokin. Markvarslan, sem var engin allan seinni hálfleikinn, kom aftur á mikilvægum tíma og það var nóg til að vinna. Stundum spilast leikirnir bara þannig að menn þurfa að finna leiðir og ég er bara stoltur af liðinu að hafa fundið leiðir eftir erfitt gengi að undanförnu. Við hefðum getað bognað í þessum leik en héldum haus og náðum að klára leikinn.

Jovan Kukobat var mikilvægur í blálokin eftir að hafa hreinlega týnst á löngum kafla í seinni hálfleiknum. Hann varði bolta þegar allt var undir.

„Já hann var að verja hraðaupphlaup og úr góðum færum í fyrri hálfleik. Svo bara datt markvarslan alveg niður en svo kom þetta í lokin. Þessir strákar hjá okkur eru bara flottir og þeir leggja allir hart að sér. Okkur finnst, í undanförnum leikjum, við hafa verið með góðar stöður og hefðum vel getað fengið eitthvað út úr leikjunum gegn sterkari liðunum. Mér finnst liðið vera á uppleið  og mér finnst við alltaf vera að taka skref fram á við. Það sýndi sig í þessum leik að vinna síðustu vikna með sóknarleikinn er að skila sér smám saman. Ég tel að við getum verið með spennandi lið eftir áramót með því að nýta næstu vikur vel. Við gætum orðið mjög hættulegir. Við horfum bara fram vegin og það er engin uppgjöf í okkur. Við ætlum okkur meira“ sagði Stefán að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert