Að vinna besta lið heims er mjög stór sigur

Guðmundur Guðmundsson kemur skilaboðum áleiðis í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson kemur skilaboðum áleiðis í kvöld. AFP

„Mér líður ótrúlega vel. Þetta var algjörlega frábær leikur af okkar hálfu og stórkostlega vel útfærður,“ sagði kampakátur Guðmundur Þór Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 31:30-sigur Íslands á heims- og ólympíumeisturum Danmerkur í fyrsta leik liðanna á EM karla í Malmö í kvöld. 

„Við þurftum að eiga algjörlega frábæran leik á öllum sviðum og við gerðum það. Ég er mjög stoltur af liðinu og að vinna besta lið heims í dag er mjög stór sigur fyrir okkur,“ sagði Guðmundur, áður en hann lýsti lykilatriðunum í sigrinum. 

„Við lögðum upp með ákveðið leikplan sem gekk fullkomlega upp, bæði í vörn og sókn. Við spiluðum ekki mörg kerfi í sókninni, heldur gerðum við þetta á mjög hnitmiðaðan hátt. Leikmennirnir fylgdu þessu í einu og öllu og gerðu þetta stórkostlega vel.“

Það gat allt gerst

Danir fengu tækifæri til að jafna í blálokin, en síðasta sókn þeirra mistókst og íslensku leikmennirnir og þjálfarar fögnuðu vel í leikslok „Það var auðvitað gríðarleg spenna í lokin og allt gat gerst. Það er ljóst að það mátti engu muna. Við vorum að spila á móti stórbrotnu liði og það gat allt gerst.“

Íslenska liðið fagnar vel og innilega í leikslok.
Íslenska liðið fagnar vel og innilega í leikslok. AFP

Íslenska vörnin átti í erfiðleikum með Mikkel Hansen framan af leik, en eftir því sem leið á tókst þeim betur að stöðva stærstu stjörnu Dana. 

„Það var ákveðinn fasi í vörninni sem var ekki nægilega góður. Þeir náðu að klippa okkur í sundur og það komu innleysingar úr hornum sem ég var óánægður með, en síðan fórum við yfir hlutina í hálfleik og bættum okkur í vörninni þegar leið á leikinn. Það er ekki hlaupið að því að stöðva Dani í þeirra áhlaupum.“

Rétt að gefa Landin rautt

„Þeir eru með stórkostlega leikmenn alls staðar á vellinum. Við unnum þetta hins vegar á frábærri liðsheild og mjög góðu leikplani. Við vorum mjög nákvæmir í því sem við ætluðum okkur og vorum búnir að skipuleggja það mjög vel. Mér leið vel fyrir leikinn, svaf vel í nótt og var sáttur við leikplanið. Það hjálpar líka að ég þekki liðið, ég þekki leikmennina þar sem ég þjálfaði þá. Við gátum nýtt okkur ákveðna veikleika í þeirra liði, bæði í vörn og sókn.“

Niklas Landin, markmaður Dana og einn sá besti í heimi, fékk beint rautt spjald í seinni hálfleik fyrir að brjóta á Ólafi Guðmundssyni utan teigs í hraðaupphlaupi. 

Aron Pálmarsson var stórkostlegur í leiknum.
Aron Pálmarsson var stórkostlegur í leiknum. AFP

„Reglurnar eru mjög skýrar. Ég held hann hafi sett fótinn fyrir hann og þetta má ekki. Það er tekið hart á svona og ég held þetta hafi verið réttur dómur, enda sáu þeir þetta á myndbandi áður en þeir ráku hann út af,“ sagði Guðmundur.

Krampi hjá Alexander

Alexander Petersson fann til í ökklanum undir lokin, en Guðmundur segir hann hafa fengið krampa og það sé ekki eitthvað til að hafa áhyggjur af. „Þetta var venjulegur krampi. Þetta var ekkert alvarlegt og engin tognun eða neitt slíkt. Það er skiljanlegt þar sem hann var búinn að vera undir miklu álagi.“

Leikmenn liðsins þurfa að fara sparlega í fögnuð, þar sem leikur gegn Rússum bíður strax á mánudaginn. Rússar töpuðu fyrir Ungverjum í dag, 26:25. 

„Íslenska landsliðið hefur brennt sig áður í svipaðri stöðu og við höfum ekki áhuga á að endurtaka það. Að því sögðu er það ekki sjálfgefið að við vinnum næsta leik. Það er mjög gott lið sem við erum að fara að spila á móti. Við þurfum virkilega á öllu okkar að halda og halda einbeitingunni alveg í gegn. Þetta er algjör dauðariðill og það má ekkert út af bregða. Við höfum rætt það nú þegar nokkrum sinnum eftir leikinn. Við þurfum að fylgja því eftir núna,“ sagði Guðmundur. 

mbl.is