Guðjón Valur stakk upp í Danina

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson benti dönskum blaðamanni á að leikur Íslands og Ungverjalands á EM í handknattleik á morgun snúist um Íslendinga og Ungverja en ekki um Dani. 

Danir þurfa að treysta á íslenskan sigur til að komast áfram í milliriðil. Að öðrum kosti eru þeir úr leik þar sem þeir töpuðu gegn Íslandi og gerðu jafntefli gegn Ungverjum. 

TV2 spurði Guðjón hvernig væri að vera í þeirri stöðu að vera með örlög Dana í hendi sér.

„Við erum ekki með örlög Dana í okkar höndum þótt þið dragið upp þá mynd að þessi leikur snúist bara um ykkur. Við erum að mæta Ungverjalandi. Fyrir okkur snýst þetta um baráttu á milli Íslands og Ungverjalands en snýst ekki um Danmörku,“ er haft eftir Guðjóni. 

Guðjón Valur þekkir vel til í Kaupmannahöfn en hann bjó þar um tíma þegar hann var leikmaður AG Kaupmannahafnar. 

„Ég ber mikla virðingu fyrir bæði leikmönnum og þjálfara danska liðsins og fyrir dönsku þjóðinni. Mér líkaði afar vel að búa þar. En þessi leikur snýst um stigin sem eru í boði fyrir okkur. Ef okkur tekst að vinna verðum við mjög ánægðir. Ég get ekki sagt annað. Því miður fyrir Danina þá þurfa þeir að treysta á aðra til að komast áfram úr því sem komið er en við hugsum um okkar lið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert