Fórum kannski fram úr okkur

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins, á hliðarlínunni í leiknum …
Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins, á hliðarlínunni í leiknum gegn Slóvenum í dag. AFP

„Fyrir það fyrsta þá byrjum við leikinn afar illa,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 30:27-tap gegn Slóven­íu í mill­iriðli 2 á Evr­ópu­mót­inu í Mal­mö í dag.

Slóvenska liðið var með yf­ir­hönd­ina nán­ast all­an leik­inn en þeir leiddu með einu marki í hálfleik, 15:14. Slóven­ar náðu mest sex marka for­skoti í síðari hálfleik en ís­lenska liðinu tókst að vinna sig aft­ur inn í leik­inn en þegar upp var staðið voru Slóven­ar ein­fald­lega of sterk­ir. Íslenska liðið er án stiga í milliriðli 1 og draumurinn um að komast í forkeppni Ólympíuleikanna fjarlægist.

„Þeir ná strax fimm marka forskoti og við gerum okkur seka um ákveðið agaleysi finnst mér. Við vorum ekki nægilega grimmir, hvorki varnarlega né sóknarlega, en samt sem áður tókst okkur að hanga inni í þessu sem er sterkt. Við náum yfirhöndinni í leiknum undir lok fyrri hálfleiks og þá kemur aftur slæmur kafli þar sem við tökum einfaldlega slæmar ákvarðanir sóknarlega. Heilt yfir þá fannst mér við spila nokkuð vel á köflum í leiknum en þegar allt kemur til alls þá töpuðum við bara fyrir betra liði í dag. Þeir eru reynslumiklir með leikmenn sem eru að spila með stærstu liðum Evrópu. Þegar allt kemur til alls þá töpum við leiknum með þremur mörkum sem er ekki mikið í handbolta. Það þurfti þess vegna ekki mikið til hjá okkur en það vantaði aðeins upp á. Við þurfum meiri rútínu, meiri aga og meiri reynslu en við erum með í dag og þannig er það bara.“

Ísland hefur nú tapað síðustu tveimur leikjum sínum á EM …
Ísland hefur nú tapað síðustu tveimur leikjum sínum á EM eftir frábæra byrjun. AFP

Töpuðu fyrir betra liði

Íslenska liðið byrjaði mótið frábærlega og vann frábæra sigra gegn Danmörku og Rússlandi í fyrstu tveimur leikjum sínum. Guðmundur viðurkennir að væntingarnar til liðsins hafi aukist eftir góða byrjun.

„Ég hugsa að væntingarnar hafi alveg haft áhrif á okkur og það getur vel verið að við höfum farið fram úr okkur, líkt og allir aðrir. Við komum hingað út og ætluðum að berjast fyrir lífi okkar til þess að komast inn í milliriðil. Við vinnum svo tvo fyrstu leikina á stórkostlegan hátt og allt í einu erum við orðnir liðið sem aðrir þurfa að vinna á mótinu. Við erum að byggja upp lið og ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni en við erum ekki alveg komnir á þann stað sem við ætlum okkur enn þá. Að sjálfsögðu ætlum við okkur sigur í öllum þeim leikjum sem við förum í og þannig lögðum við leikinn upp sem dæmi gegn Ungverjum. Ég held að það sé alveg sanngjarnt að segja að Slóvenar séu með betra lið en við í dag og sigur þeirra var sanngjarn. Að sjálfsögðu getum við alltaf gert betur en þegar allt kemur til alls gerðum við of mikið af mistökum sem má ekki gegn jafn sterku liði og Slóveníu,“ sagði Guðmundur Þórður í samtali við mbl.is.

mbl.is