Tap gegn Slóveníu á EM

Slóvenía hafði betur gegn Íslandi 30:27 í fyrsta leiknum í milliriðli númer tvö á Evrópumóti karla í handknattleik í Malmö Arena í sænsku borginni Malmö í dag. 

Slóvenar hófu milliriðilinn með tvö stig og eru nú með fjögur stig í milliriðlinum. Íslendingar eru án stiga í milliriðlinum. Aðrir leikir í milliriðlinum fara fram í dag og í kvöld. 

Á heildina litið var sigur Slóvena sanngjarn og þeir hafa unnið alla fjóra leiki sína á mótinu til þessa. Íslenska liðið hefði þurft að ná fram betri frammistöðu til að vinna lið á slíkri siglingu en sú varð ekki raunin. 

Að loknum fyrri hálfleik var staðan 15:14 og leikurinn var í járnum undir lok fyrri hálfleiks. Ísland byrjaði leikinn afar illa og upphafsmínúturnar voru í takti við síðari hálfleikinn gegn Ungverjalandi. Slóvenía komst þá yfir 7:2 en Íslendingar unnu sig inn í leikinn og náðu forystunni 12:11. Síðasta sekúndur fyrri hálfleiks voru óheppilegar eins og gegn Ungverjalandi. Ísland nýtti ekki sína síðustu sókn í fyrri hálfleik þegar fimm sekúndur voru eftir og Slóvenía brunaði fram og skoraði flautumark. 

Sóknin gekk erfiðlega framan af í síðari hálfleik en forskot Slóvena var þó ekki nema um tvö mörk þegar tuttugu mínútur voru eftir. Þá skildu leiðir og Slóvenar náðu fimm marka forskoti. Íslendingar reyndu að saxa á forskotið á lokakaflanum en það var of erfitt og Íslendingum tókst ekki að hleypa spennu í leikinn á lokakaflanum. 

Slóvenum gekk mjög vel að leysa vörn íslenska liðsins. Þegar vel gengur þá getur hún sett sóknarleik andstæðinganna í uppnám eins og gerðist gegn Rússum og í fyrri hálfleik gegn Ungverjum. Besti maður vallarins, Dean Bombac, lék sér að Íslendingum í dag. Hann skoraði níu mörk og flest þeirra með gegnumbrotum. Ofan á það bætti hann tíu stoðsendingum og átti stærstan þátt í sigri Slóvena. Markvörðurinn Klemen Ferlin átti einnig fínan leik og var dýrmætur í síðari hálfleik. Hann varði 16 skot í leiknum. 

Slóvenar skoruðu mörg auðveld mörk í leiknum en Íslendingar þurftu lengst af að hafa mun meira fyrir því að skora. Slóvenar voru því betri í bæði vörn og sókn í þetta skiptið. 

Lykilmenn í íslenska liðinu, Aron Pálmarsson og Alexander Petersson, virkuðu þreyttari en áður og þeim gekk illa í sókninni. Menn sem komu af bekknum voru ferskari eins og Viggó Kristjánsson og Ólafur Guðmundsson. Viggó skoraði 5 mörk og Ólafur Guðmundsson skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik og hafði þá góð áhrif á íslenska liðið. 

Illa gekk að finna Kára á línunni en hornaspilið var meira en stundum áður. Sigvaldi Björn Guðjónsson og Bjarki Már Elísson léku allan leikinn í hornunum og skiluðu samtals níu mörkum. Janus átti ágætar rispur í sókninni og skoraði 4 mörk. 

Björgvin Páll Gústavsson varði 9 skot í markinu og Viktor Gísli Hallgrímsson 4. Viktor varði þrjú víti í leiknum og hefði líklega verið senuþjófur hefði íslenska liðinu tekist að vinna. Markverðirnir vörðu því þrettán skot en Íslendingar héldu ekki boltanum nema í sjö tilfellum. 

Slóvenía 30:27 Ísland opna loka
60. mín. Leik lokið Slóvenía sigraði 30:27.
mbl.is