Sigurmarkið kom á síðustu sekúndunni

Króatía hefur unnið alla leiki sína á EM.
Króatía hefur unnið alla leiki sína á EM. AFP

Króatía hefur unnið alla sex leiki sína á EM karla í handbolta. Tékkland varð nýjasta fórnarlamb króatíska liðsins í dag, en lokatölur urðu 22:21, eftir að Luka Stapancic skoraði sigurmark Króatíu á síðustu sekúndunni. Leikið var í Vín í Austurríki. 

Króatía var yfir nánast allan seinni hálfleikinn en Tékkland neitaði að gefast upp og náði að jafna í 16:16 þegar skammt var eftir og úr varð æsispennandi lokakafli. 

Vojtech Patzel jafnaði fyrir Tékka í 21:21 þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka. Króatar áttu hins vegar síðustu sóknina og í henni fékk Stepancic frítt skot sem hann nýtti vel. Marko Mamic skoraði fimm mörk fyrir Króatíu og Ondrej Zdrahala gerði sex mörk fyrir Tékkland. 

Króatía hafði þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum og er liðið í toppsæti milliriðils I með átta stig. Spánn mætir Hvíta-Rússlandi klukkan 17:15 og með sigri tryggja Spánverjar sér sæti í undanúrslitum og hreinan úrslitaleik við Króatíu um toppsæti riðilsins. 

mbl.is