Noregur með fullt hús í undanúrslit

Norðmenn hafa unnið alla sjö leiki sína á EM.
Norðmenn hafa unnið alla sjö leiki sína á EM. AFP

Noregur vann sinn sjöunda leik af sjö á EM karla í handbolta í dag. Norska liðið hafði þá betur gegn því slóvenska, 33:30. Noregur mætir Króatíu í undanúrslitum á meðan Slóvenía mætir Spáni. 

Bæði lið hvíldu sína bestu leikmenn, enda bæði örugg með sæti í undanúrslitum. Noregur komst í 7:3 snemma leiks en Slóvenía gafst ekki upp og minnkaði muninn í 10:9 og var staðan í hálfleik 14:13. 

Norðmenn voru sterkari framan af í seinni hálfleik og náðu mest sex marka forskoti, 29:23. Slóvenía minnkaði muninn aftur niður í eitt mark, 30:29, en Noregur var betri í blálokin og tryggði sér enn einn sigurinn. 

Kevin Gulliksen skoraði sjö mörk fyrir Noreg og þeir Sander Øverjordet og Eivind Tangen gerðu fimm mörk hvor. Nejc Cehte og Tilen Kodrin skoruðu fimm mörk hvor fyrir Slóveníu. 

Hvíta-Rússland og Austurríki gerðu 36:36-jafntefli í Vínarborg og enda þau bæði með þrjú stig í fjórða og fimmta sæti milliriðils I.

Mikita Vailupau fór á kostum fyrir Hvíta-Rússland og skoraði tólf mörk. Artsem Karalek gerði sjö. Nikola Bilyk skoraði sjö mörk fyrir Austurríki og Sebastian Frimmel skoraði sex. 

Hvíta-Rússland og Austurríki skildu jöfn.
Hvíta-Rússland og Austurríki skildu jöfn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert