Þrjár landsliðskonur framlengja við Fram

Þórey Rósa Stefánsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir hafa framlengt samninga sína …
Þórey Rósa Stefánsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir hafa framlengt samninga sína við Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonurnar Ragnheiður Júlíusdóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir og Karen Knútsdóttir hafa allar skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild Fram. Hafa þær verið í fremstu röð í íslenskum handbolta síðustu ár. 

Ragnheiður er uppalin í Fram og hefur verið meðal bestu leikmanna efstu deildar síðan hún hóf sinn feril í meistaraflokki 2013. Hún er á sínu sjöunda keppnistímabili með Fram og hefur skorað yfir 1000 mörk. Ragnheiður hefur leikið um 25 landsleiki og skorað í þeim tæplega 30 mörk.

Þórey Rósa kom til Fram árið 2005 frá ÍR og lék með liðinu þar til árið 2009 er hún hélt utan í atvinnumennsku. Fyrst til Emmen í Hollandi til ársins 2011 en lék síðan með VFL Oldenburg í Þýskalandi og hélt síðan til Danmerkur og lék með Team Tvis Holstebro til 2013. Frá 2013 lék hún með Vipers Kristiansand í Noregi. Hún snéri aftur til Fram árið 2017.

Karen Knútsdóttir verður áfram hjá Fram.
Karen Knútsdóttir verður áfram hjá Fram. Ljósmynd/Haraldur Jónasson/Hari

Þórey Rósa var valin handknattleikskona ársins bæði árið 2017 og 2018 og er algjör lykilmaður í landsliði Íslands og annar fyrirliða landsliðsins. Þórey hefur leikið ríflega 100 landsleiki og skorað í þeim rúmlega 300 mörk.

Karen er uppalin í Fram og lék með liðinu þar til hún hélt í atvinnumennsku erlendis árið 2011. Fyrst fór hún til Blomberg/Lippe í Þýskalandi en svo til Danmerkur þar sem hún lék með SönderjyskE. Árið 2014 hélt hún til Frakklands þar sem hún lék með liði Nice við góðan orðstír.

Karen var valin handknattleikskona ársins árið 2011 og 2014 og hefur verið fyrirliði landsliðsins um nokkurt skeið. Karen hefur spilað yfir 100 landsleiki og skorað í þeim tæp 400 mörk.

„Það er er sannarlega mikið ánægjuefni fyrir okkur í Fram að þessar frábæru handboltakonur hafi framlengt hjá okkur. Þær eru ekki bara frábærir leikmenn heldur frábærir liðsmenn og miklir Framarar,“ segir í yfirlýsingu frá Fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert