Sigvaldi mætir gömlu félögunum í Meistaradeildinni

Sigvaldi Björn Guðjónsson gerði það gott með Elverum í norska …
Sigvaldi Björn Guðjónsson gerði það gott með Elverum í norska handboltanum og nú mætir hann liðinu í Meistaradeildinni. Ljósmynd/Elverum

Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður í handknattleik mun mæta sínum gömlu félögum í norska meistaraliðinu Elverum í Meistaradeild Evrópu á komandi vetri.

Kielce, pólsku meistararnir sem Sigvaldi og Selfyssingurinn Haukur Þrastarson eru gengnir til liðs við, verða í A-riðli Meistaradeildarinnar, og Elverum dróst í sama riðl. Þar verða einnig Stefán Rafn Sigurmannsson og samherjar hans í ungverska liðinu Pick Szeged.

Hin fimm liðin í A-riðli eru Vardar Skopje frá Norður-Makedóníu, París SG frá Frakklandi, Flensburg frá Þýskalandi, Porto frá Portúgal og Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi. Þeir Sigvaldi og Haukur eiga því fyrir höndum fjórtán hörkuleiki í riðlakeppninni næsta vetur.

Aron Pálmarsson og samherjar í Barcelona eru í B-riðlinum en þar verður eini íslenski andstæðingurinn aðstoðarþjálfari Aalborg frá Danmörku, Arnór Atlason. Auk þessara liða eru í riðlinum Kiel frá Þýskalandi, Veszprém frá Ungverjalandi, Nantes frá Frakklandi, Motor Zaporzhye frá Úkraínu, Celje Lasko frá Slóveníu og Zagreb frá Króatíu.

Fyrsta leikhelgin í Meistaradeildinni verður 16.-17. september og riðlakeppninni á að ljúka í mars 2021.

mbl.is