Eyjamenn betri á öllum sviðum

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. mbl.is/Sigfús GUnnar

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, var ekki sáttur með leik sinna manna en þeir töpuðu með fjögurra marka mun gegn ÍBV, 28:24. Munurinn var meiri mest allan leikinn og var átta mörk í hálfleik, 18:10.

„Þetta var arfaslakur fyrri hálfleikur, það er eiginlega allt sem fer úrskeiðis. Sóknarleikurinn er lélegur, sama hvort það er gegn 5+1 eða 6-0, hann er hægur, fyrirsjáanlegur og taktlaus. Við erum klikka á færum, erum með tæknifeila og hlaupum illa til baka. Þeir skora mikið á okkur úr hröðum sóknum og keyra vel í bakið á okkur, við viljum spila þannig leik líka en héldum ekki í við þá þar. Þar af leiðandi stöndum við litla vörn og ekki nógu góða, markvarslan er líka slæm. Allir þessir stóru þættir eru ekki til staðar.“

„Að sama skapi spilar ÍBV vel og nýttu sér það að við vorum lélegir,“ sagði Snorri jafnframt en hann gaf lítið fyrir að það hafi vantað tvo stóra pósta í hans lið.

„Auðvitað söknum við góðra leikmanna en það vantaði Sigtrygg hjá þeim og þetta fylgir þessu. Skakkarföllinn eiga eftir að verða fleiri í vetur en við erum alveg með breiddina og hópinn til að covera þetta, þó svo að við höfum ekki gert það í dag. Þetta er engin afsökun fyrir lélegri frammistöðu, alls ekki.“

Valsmenn komu vel gíraðir í seinni hálfleik og sagðist Snorri hafa séð neista hjá hans mönnum þar.

„Ég kallaði eftir því að við myndum sýna meira fyrir hvað við stöndum, ÍBV var ekki bara betri í handbolta en þeir sýndu líka meiri vilja og karakter í fyrri hálfleik, það er það sem ég var aðallega óánægður með. Mér fannst strákarnir svara því og sýna úr hverju þeir eru gerðir, það hefði verið auðvelt að leggjast niður og bíða eftir að leikurinn væri búinn. Við reyndum allan tímann og söxuðum aðeins á þetta, þó að við höfum ekki veitt þeim neinn leik.“

Munurinn á liðunum var mikill á tveimur sviðum, fyrst voru það löglegu stöðvanirnar þar sem Valsmenn náðu varla að klukka leikmenn ÍBV og þar af leiðandi flæðið í þeirra sóknarleik mikið meira en hjá gestunum.

„Þeir voru grimmari og beittari, við náðum ekki upp okkar varnarleik. Í fyrri hálfleik skiluðum við okkur illa til baka en ég var ánægður með innkomuna hjá Einari Þorsteini (Ólafssyni) og við breyttum klárlega gangi leiksins. ÍBV var í miklum vandræðum með okkar vörn í seinni hálfleik þar sem við fáum bara á okkur tíu mörk. Við tökum það jákvætt með okkur,“ sagði Snorri en munurinn var líka mikill í markvörslunni þar sem Eyjamenn voru með fjórtán bolta varða á móti sjö.

„Ég veit ekki hvort það hafi verið mesti munurinn en hún var klárlega betri hjá þeim. Mér fannst þeir betri á öllum sviðum, fríköstin og markvarslan, þeir eru pottþétt með færri tæknifeila og eitthvað svoleiðis. Þegar lið vinnur andstæðing verðskuldað þá er það yfirleitt betra á öllum sviðum, leikurinn var alls ekki jafn en þetta voru mikil vonbrigði, við ætluðum okkur meira og ég hefði viljað veita þeim meiri leik en við gerðum.“

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, á hliðarlínunni í dag.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Sigfús Gunnar
mbl.is