Sterkur fyrri hálfleikur dugði Eyjamönnum

Hákon Daði Styrmisson skýtur að marki Valsara í leiknum í …
Hákon Daði Styrmisson skýtur að marki Valsara í leiknum í dag. mbl.is/Sigfús Gunnar

Eyjamenn unnu sigur á Valsmönnum í dag þegar 3. umferð Olísdeildar karla í handknattleik fór fram. Eyjamenn lögðu grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik þar sem þeir leiddu 18:10. Lokatölur voru 28:24 og sigurinn í raun aldrei í hættu. Markverðir Eyjamanna skiptu hálfleikunum á sig og vörðu báðir vel á stórum köflum.

Eyjamenn leiddu allan fyrri hálfleikinn og byggðu jafnt og þétt ofan á forskotið. Staðan var 18:10 í hálfleik og höfðu gestirnir þá verið geldir sóknarlega í langan tíma. Petar Jokanovic var ótrúlegur í markinu, hann varði 8 skot, mörg hver úr dauðafærum.

Þá hafði ÍBV-vörnin virkað mjög vel og skilað hraðaupphlaupum sem Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, hafði ekki neinn húmor fyrir. Það sauð á honum nokkrum sinnum og lét hann sína menn t.a.m. heyra það þegar Eyjamenn tóku leikhlé um miðbik hálfleiksins.

Í byrjun seinni hálfleiks náðu Valsmenn að minnka forystuna niður í fimm mörk en eftir það voru þeir í eintómu veseni. Einar Þorsteinn Ólafsson fékk að líta rautt spjald fyrir að fara í andlitið á Fannari Friðgeirssyni og var það í 2. skiptið sem Eyjamenn kölluðu eftir rauðu spjaldi í leiknum.

Munurinn var fimm mörk í seinni hluta fyrri hálfleiks og gerðu Eyjamenn vel að halda þeim mun, Valsmenn hefðu þurft á sínum mönnum að halda sem voru meiddir. Róbert Aron Hostert hefur oft dregið vagninn sóknarlega fyrir liðið og vantaði Stiven Tobar Valencia til að vega upp á móti Vigni Stefánssyni í horninu.

ÍBV 28:24 Valur opna loka
60. mín. Björn Viðar Björnsson (ÍBV) varði skot
mbl.is