Best fyrir mig að koma heim

Thea Imani Sturludóttir í leiknum í dag.
Thea Imani Sturludóttir í leiknum í dag. Íris Jóhannsdóttir

„Það er gaman að komast inn í þetta aftur. Það er náttúrulega stutt síðan ég skrifaði undir. Ég mætti beint úr sóttkví á æfingar og er bara að reyna að komast inn í liðið og finna tempóið. Annars líst mér bara mjög vel á þetta.“

Þetta sagði Thea Imani Sturludóttir, leikmaður Vals í handknattleik og lykilmaður í íslenska landsliðinu, í samtali við mbl.is eftir öruggan 29:21 sigur gegn Stjörnunni í Olís-deildinni í dag.

Hún var ánægð með leik Vals í dag. „Mér fannst spilamennskan mjög flott. Það eru mjög margar sterkar mættar aftur í deildina að utan. Það er flott að mæta á æfingar hjá Val, þær eru allar mjög ákveðnar og góður andi í hópnum eins og við sýndum í dag.

Við vorum tilbúnar að mæta til leiks þótt þær [samherjar Theu) hafi verið búnar að vera í þessu Covid-fríi en það eru allir með sama markmið,“ sagði Thea.

Spurð um markmið Vals á tímabilinu sagðist hún ekki trúa öðru en að liðið stefndi að því að hampa Íslandsmeistaratitlinum. „Ég missti náttúrulega af öllum fundunum í byrjun tímabils en ég held að það sé markmiðið.“

Eins og Thea bendir á er hún nýgengin til liðs við Val. Lék Thea síðast sem atvinnumaður með Aarhus United í dönsku úrvalsdeildinni og hefur einnig spilað með Volda í Noregi.

Ástæðuna fyrir heimkomunni sagði hún vera margþætta. „Í Árósum gengu ákveðnir hlutir ekki upp og eins líka ástandið, það er búið að hafa áhrif á margt. Ég er líka búin að vera að glíma við meiðsli mestallt tímabilið og ég tók bara þá ákvörðun að það væri best fyrir mig að koma heim,“ sagði Thea að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert