Misstum broddinn

Sigtryggur Daði Rúnarsson reynir skot að marki Hauka í kvöld.
Sigtryggur Daði Rúnarsson reynir skot að marki Hauka í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn töpuðu með sjö marka mun á heimavelli sínum gegn Haukum í 13. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olísdeildarinnar, í Vestmannaeyjum í kvöld.

Fljótlega varð ljóst að gestirnir myndu taka bæði stigin með sér heim en leiknum lauk 19:26. Kristinn Guðmundsson, aðstoðarþjálfari Eyjamanna, var ekkert allt of ánægður með niðurstöðuna eftir leik.

„Við missum broddinn, sóknarlega vorum við með í byrjun, þegar liðin voru ekki búin að koma sér almennilega fyrir varnarlega. Björgvin ver vel og tók mikið af góðum færum, hann lokaði á okkur í góðum færum og dró aðeins úr okkur vígtennurnar. Við urðum staðir og gerðum mistökin sem við ætluðum okkur ekki að gera. Við fengum á okkur ódýr mörk og þá verður þetta erfitt, sérstaklega á móti liði eins og Haukum.“

Eyjamenn skoruðu ekki mark á fimmtán mínútna kafla um miðbik leiksins, en þrátt fyrir að Haukar hafi aðeins skorað fimm mörk á þeim tíma þá lögðu þeir grunninn að sigrinum þar.

„Þetta var mjög vondur kafli sóknarlega af okkar hálfu, við nýttum ekki þau fáu færi sem við þó fengum. Við vorum líka of staðir á bolta og ekki nóg áræðnir eða öruggir í okkar aðgerðum. Þá lendir maður í vandræðum,“ sagði Kristinn en Eyjamenn tóku eitt leikhlé og Haukarnir einnig á þeim kafla og virtust heimamenn í raun engin svör eiga.

„Það er ekki hægt að líta fram hjá því að við vorum í vandræðum, við vissum þó við hverju við mættum búast. Ef þú ætlar að fara á þessa vörn á Haukunum og fá eitthvað út úr því, þá þarf að vera áræðinn en við vorum það ekki. Við vorum ekki nógu öflugir til að slíta þessa vörn í sundur.“

Eyjamenn virðast sakna leikmannanna sem eru frá og virðist Sigtryggur ekki vera kominn nógu vel inn í spilið þrátt fyrir að hann sé kominn inn í leikmannahópinn.

„Í dag lítur það út þannig, við höfum líka spilað marga hörkuleiki við góð lið þar sem við erum óheppnir og klaufar. Í dag lítur þetta þannig út en ekki síðast, það er eðlilegt að menn eigi sveiflukennda leiki og við þurfum bara að vinna í því.“

mbl.is