Göptu af undrun yfir óvæntri framkomu þjálfarans

Talant Dujshebaev, til vinstri, brosmildur á fundinum í gærkvöld og …
Talant Dujshebaev, til vinstri, brosmildur á fundinum í gærkvöld og markvörðurinn Emil Nielsen er til hægri. Ljósmynd/Kielce

Talant Dujshebaev, þjálfari pólska meistaraliðsins Kielce, er talinn einn fremsti handboltaþjálfari heims, en um leið einn sá skapmesti. Hann kom mörgum í opna skjöldu í gærkvöld eftir að Kielce tapaði óvænt fyrir Nantes frá Frakklandi á heimavelli, 31:34, og féll þar með út úr sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa unnið fyrri leikinn í Frakklandi með eins marks mun.

Á blaðamannafundi eftir leikinn var Dujshebaev í góðu skapi og sneri sér skyndilega að Emil Nielsen, dönskum markverði Nantes sem sat fundinn fyrir hönd franska félagsins, og tók í höndina á honum.

„Þessi strákur gerði gæfumuninn í báðum leikjum með því að verja 16-17 skot í hvorum leik. Hvað get ég annað sagt?“ sagði Dujshebaev brosandi og einn þeirra sem göptu af undrun var Bent Nyegaard, handboltasérfræðingur TV2 Sport í Danmörku og þjálfari Fram og ÍR á árum áður.

„Það er afar sjaldgæft að sjá Talant Dujshebaev sýna andstæðingi slíka virðingu. Við munum kannski best eftir hneykslinu þegar hann sló Guðmund Guðmundsson, og hann er yfirleitt foxillur og svekktur eftir tapleiki, en hér situr hann brosandi og tekur í höndina á Emil danska. Þetta er fallegt og afskaplega íþróttamannslegt hjá umdeildum þjálfara sem er engan veginn þekktur fyrir svona framkomu,“ sagði Nyegaard við TV2 Sport.

Þar vísaði hann í atvik eftir leik í Meistaradeildinni árið 2014 þar sem Dujshebaev sló Guðmund, þáverandi þjálfara Rhein-Neckar Löwen, á viðkvæman stað þegar þeir áttu í orðaskiptum. Dujshebaev, sem á árum áður var einn besti handboltamaður heims og hefur stýrt Kielce frá 2014, fékk á dögunum langt bann í pólska handboltanum fyrir að mótmæla harkalega eftir að sonur hans, Daniel Dujshebaev, fór meiddur af velli í undanúrslitaleik bikarsins.

Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson leika undir stjórn Dujshebaevs hjá Kielce. Sigvaldi skoraði eitt mark gegn Nantes í gær en Haukur hefur verið frá keppni síðan í október þegar hann sleit krossband í hné.

Dujshebaev er 52 ára gamall og gerði það gott með landsliðum Sovétríkjanna, Rússlands og Spánar á árunum 1990 til 2002 en einnig var hann sjö síðustu árin leikmaður Ciudad Real á Spáni þar sem hann lék með Ólafi Stefánssyni í nokkur ár og þjálfaði hann síðan. Saman urðu þeir Spánarmeistarar þrisvar og Evrópumeistarar þrisvar en Dujshebaev þjálfaði Ciudad Real frá 2005 til 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert