12 stoðsendingar Elvars í sigri í Íslendingaslag

Elvar Ásgeirsson í leik með Aftureldingu á síðasta leiktímabili.
Elvar Ásgeirsson í leik með Aftureldingu á síðasta leiktímabili. Haraldur Jónasson/Hari

Elvar Ásgeirsson fór á kostum í liði Nancy þegar liðið vann góðan 34:32 sigur á Nice, sem Grétar Ari Guðjónsson leikur með, í frönsku B-deildinni í gærkvöldi. Skoraði Elvar fjögur mörk en það sem meira er um vert gaf hann 12 stoðsendingar.

Þetta kemur fram á Handbolta.is. Á heimasíðu deildarinnar er hins vegar aðeins ein stoðsending skráð á Elvar og raunar allt lið Nancy, sem gengur ekki alveg upp enda hljóta fleiri að hafa lagt upp þessi 34 mörk liðsins.

Grétar Ari varði 14 skot fyrir Nice og var með rúmlega 30 prósent markvörslu í leiknum.

Nancy er eftir sigurinn í þriðja sæti B-deildarinnar og stefnir hraðbyri í umspil um sæti í frönsku 1. deildinni.

Nice er hins vegar í verri stöðu í sjöunda sæti deildarinnar, fimm stigum frá sjötta sætinu, sem er síðasta umspilssætið, þegar liðið á þrjá leiki eftir.

Grétar Ari Guðjónsson hefur spilað vel fyrir Nice á tímabilinu.
Grétar Ari Guðjónsson hefur spilað vel fyrir Nice á tímabilinu.
mbl.is