Við ætluðum bara að stríða bestu liðunum

Rut Arnfjörð Jónsdóttir skýtur að marki á Hlíðarenda.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir skýtur að marki á Hlíðarenda. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er ólýsanleg tilfinning, ég bjóst kannski ekki við þessu þegar ég kom hingað en þetta er bara frábært,“ sagði Rut Arn­fjörð Jóns­dótt­ir í samtali við mbl.is eftir að hún varð Íslandsmeistari í handknattleik með KA/Þór í dag.

Norðankonur unnu Val í úrslitaeinvíginu, 2:0, en Rut, sem gekk til liðs við liðið eftir að hafa komið heim úr atvinnumennsku í fyrra, viðurkenndi að hún hefði ekki átt von á þessu fyrir tímabilið. „Við ætluðum bara að stríða bestu liðunum, koma okkur í úrslitakeppnina og svo auðvitað stefna sem lengst. Svo leið á tímabilið og við vorum stöðugar, þetta voru allt erfiðir leikir og við þurftum að hafa fyrir hverjum sigri en þetta tókst.“

Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill KA/Þórs í kvennahandboltanum og sömuleiðis sá fyrsti hjá Rut, sem segir framtíðina bjarta.

„Það er mikið af ungum stelpum hérna sem geta bætt sig enn þá meira og framtíðin er björt á Akureyri. Þetta er fyrsti titillinn hér og sá fyrsti hjá mér líka, þetta er frábært fyrir þessar ungu stelpur sem sjá að þetta er hægt og gefur þeim vonandi aukaorku til að æfa meira og verða betri. Svo má ekki gleyma að við erum með frábært stuðningsfólk bæði hér og heima sem hjálpaði okkur mikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert