„Þeir voru bara betri“

Atli Már Báruson með boltann í fyrri leiknum á þriðjudaginn.
Atli Már Báruson með boltann í fyrri leiknum á þriðjudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atli Már Báruson, vinstri skytta Hauka, sagði betra liðið hafa unnið í kvöld þegar Hafnfirðingarnir lutu í lægra haldi, 29:34, á heimavelli gegn Val í síðari leik úrslitaeinvígis Íslandsmótsins í handknattleik karla.

Fyrri leikurinn í Origo-höllinni að Hlíðarenda á þriðjudaginn endaði einnig með tapi, 29:32, og Valur þar með Íslandsmeistari með samanlögðum átta marka sigri. Atla Má fannst sem leikirnir tveir hafi þróast á svipaðan hátt.

„Þetta var bara voða svipað og fyrri leikurinn. Við einhvern veginn náðum aldrei takti, sérstaklega í fyrri hálfleik og erum þarna einhverjum mörkum undir. Það er erfitt að koma til baka á móti Val.

Við fórum yfir allt og ætluðum að gera betur en það gekk ekki upp. Þeir eru bara með gott lið og voru bara betri. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði hann í samtali við mbl.is eftir leik.

Spurður hvort Haukar hefðu mögulega toppað of snemma á meðan Valur toppaði á hárréttum tíma sagði Atli Már:

„Ég veit það ekki. Fyrir viku síðan vorum við ekki búnir að tapa í einhverja mánuði. Þetta er bara svona, þetta er úrslitakeppni, eitt lið vinnur og eitt þarf að tapa.

Við vissum alveg að þeir væru þannig séð með jafn góðan hóp og við þó að það hafi ekki gengið jafn vel hjá þeim [í deildinni] á tímabilinu.“

mbl.is