Alfreð setur stefnuna á undanúrslit

Alfreð Gíslason þjálfari Þjóðverja
Alfreð Gíslason þjálfari Þjóðverja AFP

Þýska karlalandsliðið í handbolta undirbýr sig nú af krafti fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. Þýskaland mætir Spáni í fyrsta leik sínum á leikunum á laugardaginn kemur. Þýskaland er einnig með Argentínu, Brasilíu, Frakklandi og Noregi í riðli á leikunum.

Alfreð Gíslason þjálfar þýska liðið og hann er spenntur fyrir leikunum. „Æfingabúðirnar hafa verið mjög góðar. Liðið lítur vel út og æfingarnar hafa verið góðar. Allir leikmenn eru klárir í bátana og við fulla heilsu,“ sagði Alfreð á blaðamannafundi í dag.

„Við verðum að spila vel til að vinna spænska liðið. Það er mikil reynsla hjá Spánverjunum,“ sagði Alfreð og bætti við að Þýskaland ætlaði sér að komast í undanúrslit. „Það er okkar markmið, að komast í undanúrslit. Til að komast þangað verðum við að vinna góð lið. Hver einasti leikur er gríðarlega mikilvægur,“ sagði Alfreð.

Þýska liðið er komið til Japans og æfir í Tokushima. Liðið átti að mæta Barein í æfingaleik en ekkert varð úr því þar sem lið Bareins mátti ekki ferðast til Tokushima vegna sóttvarna. Síðustu daga hefur Þýskaland unnið Egyptaland og Brasilíu í undirbúningsleikjum.

mbl.is