Orri lék gegn stórliðinu í Sparkassen Arena

Orri Freyr Þorkelsson.
Orri Freyr Þorkelsson. mbl.is/Unnur Karen

Hafnfirðingurinn Orri Freyr Þorkelsson fékk í kvöld tækifæri til að mæta þýska stórliðinu Kiel í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. 

Orri er á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku og leikur með norska liðinu Elverum. Leikurinn fór fram í hinni glæsilegu höll Sparkassen Arena í Kiel. 

Ekki virðast liðin hafa lagt mikla áherslu á varnarleik í kvöld því Kiel vann Elverum 41:36. Orri Freyr fékk fjögur marktækifæri í horninu og skoraði eitt mark. 

Liðin leika í A-riðli keppninnar en Kiel hefur unnið báða leikina eins og danska liðið Aalborg. Eru liðin með 4 stig. Pick Szeged og Vardar eru með 3 stig. Everum og Montpellier eru með 1 stig en Meshkov Brest og Zagreb eru án stiga. 

mbl.is