Magdeburg áfram á sigurbrautinni

Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magdeburg hélt áfram sigurgöngu sinni í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld þegar liðið vann stórsigur á Balingen á útivelli, 28:17.

Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mrk fyrir Magdeburg og Gísli Þorgeir Kristjánsson eitt. Daníel Þór Ingason skoraði eitt mark fyrir Balingen en Oddur Gretarsson var ekki með liðinu vegna meiðsla.

Magdeburg hefur unnið alla fjóra leiki sína í haust og er með 8 stig á toppnum eins og Füchse Berlín. Kiel og Göppingen eru líka með fullt hús, 6 stig eftir þrjá leiki. Balingen er með tvö stig eftir fjóra leiki.

Bergischer vann Stuttgart í æsispennandi leik, 26:25, þar sem Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir Bergischer og Andri Már Rúnarsson eitt mark fyrir Stuttgart. Viggó Kristjánsson, aðalmarkaskorari Stuttgart, er úr leik í bili vegna meiðsla.

Bergischer hefur byrjað vel og er í fimmta sæti með sex stig eftir fjóra leiki. Stuttgart hefur tapað fyrstu þremur leikjum sínum.

mbl.is