Landsliðsfyrirliðinn frá vegna höfuðhöggs

Aron Pálmarsson í leik með Aalborg.
Aron Pálmarsson í leik með Aalborg. Ljósmynd/Aalborg

Aron Pálmarsson, leikmaður Aalborgar í Danmörku og fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, verður fjarri góðu gamni þegar liðið tekur á móti Kiel í A-riðli Meistaradeildarinnar í Danmörku í kvöld.

Aron, sem er 31 árs gamall, er að glíma við höfuðmeiðsli en hann fékk slæmt högg í leik Aalborgar gegn Ribe-Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Aalborg er með 8 stig í fjórða sæti riðilsins eftir sjö umferðir fyrir leik kvöldsins en Kiel er í öðru sætinu með 11 stig.

Tvö efstu lið riðilsins fara áfram í átta liða úrslit keppninnar en liðin sem hafna í 3.-6. sæti fara í umspil um sæti í átta liða úrslitunum.

Aron gekk til liðs við Aalborg í sumar frá stórliði Barcelona þar sem hann varð fjórum sinnum Spánarmeistari og einu sinni Evrópumeistari.

mbl.is