Ég ætla ekki að svara svona bulli

Einar Jónsson ræðir við sína menn.
Einar Jónsson ræðir við sína menn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er erfitt að tapa en mér fannst við gera marga góða hluti,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, í samtali við mbl.is eftir 24:34-tap gegn Val í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld.

Þrátt fyrir tíu marka tap var Einar að mörgu leyti sáttur við lærisveina þína. „Það var aðallega Björgvin Páll sem skildi liðin að í kvöld. Hann varði ógrynni af dauðafærum. Við verðum bara að slútta betur. Ég veit ekki hvað við förum með mörg dauðafæri og það er fyrst og fremst það sem þarf að laga

Við getum spilað betri varnarleik að mínu mati líka. Hann var kannski ekki alveg nógu góður. Það var margt ágætt, sem er fáránlegt að segja eftir tíu marka tap en það er margt sem við getum byggt á.“

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, einn besti leikmaður Fram, fékk beint rautt spjald snemma leiks. Á hans fengu kornungir leikmenn Framara stórt hlutverk í afar erfiðum leik.

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skýtur að marki Vals í kvöld. Hann …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skýtur að marki Vals í kvöld. Hann fékk rautt spjald í fyrri hálfleik. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég sá það ekki, það gerðist hinum megin á vellinum og ég treysti dómurunum fullkomlega fyrir því. Það var gríðarlegur missir fyrir okkur að missa Gauta af velli eftir korter. Þeir sem komu inn voru frábærir. Reynir er 16 ára gutti og spilaði hrikalega vel. Þetta er búið að vera svona í allan vetur og við erum orðnir vanir þessu. Við hefðum getað brotnað sem við gerðum ekki,“ sagði Einar.

Björgvin Páll Gústavsson gaf það sterklega í skyn í viðtali við mbl.is að sóknarmenn Fram væru viljandi að skjóta í höfuðið á sér. Einari var ekki skemmt yfir ummælum landsliðsmarkvarðarins. „Ég ætla ekki að svara svona bulli,“ sagði Einar gáttaður.

Tvo sigra þarf til að fara í undanúrslit og verða Framarar að vinna leik tvö á heimavelli, annars eru þeir komnir í sumarfrí. „Okkur hlakkar til að fara í Safamýrina og við ætlum að selja okkur dýrt. Það verður drullugaman að fá alvöru úrslitaleik þar og við ætlum að koma aftur hingað, það er alveg klárt,“ sagði Einar Jónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert