Gera þetta viljandi eða eru svona lélegir

Björgvin Páll Gústavsson er ósáttur við skotval Valsmanna.
Björgvin Páll Gústavsson er ósáttur við skotval Valsmanna. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við vorum með þá allan tímann. Mér leið vel allan leikinn. Við erum mættir í úrslitakeppnina,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, í samtali við mbl.is eftir 34:24-heimasigur á Fram í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta.

Valsmenn voru yfir allan leikinn og var sigurinn afar sannfærandi. „Við gerðum flest allt vel í kvöld. Við vorum aðeins að missa boltann á klaufalegum mómentum en það breytti engu í dag því við vorum miklu betri.“

Björgvin Páll er óánægður með skotvalið hjá leikmönnum Fram og gaf það sterklega til kynna að þeir væru viljandi að annaðhvort skjóta nálægt höfðinu á honum eða hreinlega í höfuðið á honum.

Arnór Snær Óskarsson sækir að marki Fram í kvöld.
Arnór Snær Óskarsson sækir að marki Fram í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég átti von á að þeir myndu berja okkur í andlitið og ég átti von á því að þeir fengju rautt spjald. Ég átti von á því að fá boltann yfir hausinn og í hausinn. Þetta er það sama og gerðist í síðasta leik og það eru skýr skilaboð. Þeir ætla að fara þannig út.

Annaðhvort gera þeir þetta viljandi eða eru svona lélegir. Ég veit þeir eru góðir handboltamenn, svo það hlýtur að vera það fyrra. Ég er búinn að fá fjögur skot í hausinn frá þeim í tveimur leikjum. Þeir vita að ég fékk skot í hausinn um daginn og það er um að gera að keyra á það þá. Þetta er mjög skynsamlegt hjá þeim. Það eru skýr skilaboð að skjóta yfir hausinn á mér eða í hausinn á mér. Þeir verða að svara fyrir það.“

Annar leikur einvígisins fer fram í Safamýri 24. apríl. „Þetta er frábært handboltalið en það vantaði mikið hjá þeim í dag. Þeir eru góðir í handbolta og það er barátta í þeim. Það er extra erfitt að mæta í Safamýrina. Við verðum að vera klárir í baráttuna þar líka," sagði Björgvin Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert