Öllu skiptir að vinna

Stefán Arnarson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var vitað, ég sagði það alltaf, svona er úrslitakeppnin,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, eftir sigur liðsins á ÍBV í 2. leik undanúrslita Íslandsmóts kvenna í handknattleik. Fram leiðir einvígið 2:0 en leikurinn reyndist erfiðari en sá fyrsti fyrir Framstelpur.

„Þær eru í fyrsta lagi með gott lið. Varnarleikurinn okkar var mjög lélegur fyrstu fimmtán í fyrri hálfleik. Síðan löguðum við vörnina og fengum bara á okkur 9 mörk í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik var vörnin mjög góð, sóknin var góð fyrstu fimmtán eða tuttugu,“ sagði Stefán.

„Eftir það fórum við að reyna að halda forskoti sem er aldrei gott og hefðum geta hleypt þeim inn í leikinn. Hafdís varði vel og kom í veg fyrir það, ég er gríðarlega ánægður að ná að vinna hérna og vera kominn í 2:0,“ sagði Stefán en Hafdís var algjörlega mögnuð í síðari hálfleik og varði Framara einfaldlega í 2:0.

Fram hefur sjaldan eða aldrei skorað jafn fá mörk og í dag, þannig það var eins gott að vörnin hélt jafn vel og raun ber vitni.

„Vegna þess að þetta gerist oft í úrslitakeppninni, liðin þekkjast svo gríðarlega vel svo oft verður lítið skorað. Öllu skiptir að vinna og ég er ánægður með það,“ sagði Stefán en ef einhver þekkir góða úrslitakeppni þá er það hann, en hann hefur spilað ófáa leikina í úrslitakeppninni.

Hafdís Renötódóttir var mögnuð eins og áður segir en hún varði einungis þrjú skot í fyrri hálfleiknum.

„Vörnin var ekki að virka hjá okkur fyrstu fimmtán mínúturnar og þá er erfitt að vera markmaður. Þegar vörnin gekk þá komst hún í gang.“

Stefán er öllum hnútum kunnugur í úrslitakeppninni og hann vildi ekki segja að einvígið væri búið. „Langt því frá, við erum í góðri stöðu en við verðum að klára þetta.“

Það sást á leikmönnum Fram að það var mikill léttir fyrir þær að klára leikinn, mikinn fögnuður braust út þegar leiknum var lokið.

„Við berum mikla virðingu fyrir ÍBV, við vitum að þær eru sterkar og það er mjög gott að koma hingað og vinna.“

mbl.is