Valur fer í úrslitin gegn Fram

Valskonur fagna sigrinum.
Valskonur fagna sigrinum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA/Þór og Valur spiluðu í fjórða skiptið í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í dag í KA-heimilinu á Akureyri. KA/Þór varð að vinna til að halda sér í keppni en Valur leiddi einvígið 2:1. Fram var þegar búið að tryggja sig inn í lokaúrslitin en Framarar lögðu ÍBV 3:0 í hinu einvíginu. 

Frá því að Valur komst í 1:0 í leiknum var liðið með forustu allt til enda. Valur vann 30:28 eftir spennandi seinni hálfleik þar sem heimakonur gerðu nokkrar atlögur að Val en náðu aldrei að jafna leikinn. 

Markvarsla liðanna í síðasta leik var mjög afgerandi þáttur í að Valur vann þann leik og þurftu markmenn KA/Þórs heldur betur að trekkja sig í gang fyrir þennan leik. Hin frábæra Matea Lonac, sem hefur verið aðalmarkvörður KA/Þórs síðustu tímabil, er úr leik þetta tímabilið og Sunna Guðrún Pétursdóttir er komin með mun meiri ábyrgð. 

Andrea Gunnlaugsdóttir í marki Vals kom inn í liðið fyrir skömmu eftir að Saga Sif Gísladóttir gekk úr skaftinu. Saga Sif er barnshafandi og spilar þess vegna ekki í úrslitakeppninni. Andrea hins vegar hefur verið sá þröskuldur sem norðankonur hafa ekki komist yfir í sigurleikjum Vals. 

Það var því afar spennandi að sjá hvernig markverðir liðanna kæmu til leiks í dag. 

Valur komst strax í 4:0 og svo í 7:2 og eftir þennan upphafskafla skiptust liðin á að skora fram að hálfleik. KA/Þór náði að minnka muninn í tvö mörk undir lok fyrri hálfleiks en Hildigunnur Einarsdóttir átti síðasta orðið og kom Val í 16:13 á lokamínútunni. 

Valur byrjaði svo seinni hálfleikinn betur og komst í 18:13. Heimakonur komu sér smám saman inn í leikinn og tókst að minnka muninn í eitt mark 21:20, eftir 41 mínútu. Thea Imani Sturludóttir tók þá til sinna ráða og skoraði tvö næstu mörk. KA/Þór komst síðan aldrei nær Val en tvö mörk og gestirnir kláruðu þetta með seiglunni. Heimakonur spiluðu illa úr sínum spilum á lokakaflanum og klúðruðu full miklu til að eiga séns. 

Valur fer í úrslitaeinvígið gegn Fram og Íslandsmeistarar KA/Þórs fara í sumarfrí.

Aldís Ásta Heimisdóttir sækir að marki Vals í leiknum.
Aldís Ásta Heimisdóttir sækir að marki Vals í leiknum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
KA/Þór 28:30 Valur opna loka
60. mín. Lovísa Thompson (Valur) skoraði mark Valur er að klára þetta.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert