Standa tæpt eftir afar nauman ósigur

Díana Dögg Magnúsdóttir leikur með Zwickau.
Díana Dögg Magnúsdóttir leikur með Zwickau. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar hennar í Zwickau standa tæpt í efstu deild Þýskalands í handknattleik eftir nauman ósigur gegn Leverkusen á útivelli í kvöld, 25:24, í næstsíðustu umferð deildarinnar.

Díana var næstmarkahæst hjá Zwickau með sex mörk og kom liðinu í 23:22 þegar aðeins rúmar tvær mínútur voru eftir. Heimaliðið sneri tapi í sigur og skoraði úrslitamarkið tveimur sekúndum fyrir leikslok.

Zwickau hefði komist af botninum og úr fallsæti með sigri en situr þar áfram með 9 stig fyrir síðustu umferðina. Rosengarten er með 10 stig í þrettánda sæti af fjórtán liðum en neðsta liðið fellur og næstneðsta liðið fer í umspil. Möguleikarnir eru þó galopnir, Zwickau á útileik við Oldenburg sem er með 16 stig  í 11. sætinu og Rosengarten á heimaleik við Leverkusen sem er með 17 stig í 10. sætinu. Lokaumferðin  fer fram á laugardaginn.

mbl.is