„Það er algjörlega geggjað að hafa náð að klára þetta í fjórða leik,“ sagði Stella Sigurðardóttir, leikmaður Fram, í samtali við mbl.is. Liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna eftir 23:22-sigur gegn Val í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.
„Tilfinningarnar hjá mér eru blendnar. Ég er frekar pirruð eftir þetta rauða spjald sem ég fékk, því mér fannst það ekki sanngjarnt. Því miður þá eyðilögðu dómararnir hálfpartinn leikinn fyrir mér.
Ég veit ekki af hverju, en ég á mjög erfitt með að fagna akkúrat núna en ég ætla að reyna koma mér í gírinn, svo ég geti fagnað almennilega með stelpunum.
Þetta Framlið er algjörlega frábært lið, með geggjaða liðsheild og þrátt fyrir að hafa lent í erfiðleikum í seinni hálfleik komum við til baka og náðum að landa sigri,“ sagði Stella.
Stella snéri nokkuð óvænt aftur á handboltavöllinn í janúar á síðasta ári eftir erfið höfuðmeiðsli.
„Ég varð Íslandsmeistari með Fram árið 2013 og fór svo út í atvinnumennsku sem entist í sex mánuði vegna höfuðhöggs. Ég hætti í handbolta í sjö ár en snéri svo aftur á síðasta ári. Það var mikill sigur fyrir mig þegar ég snéri aftur inn á handboltavöllinn og ég er þess vegna mjög svekkt með að ferillinn sé mögulega á enda eftir að hafa verið rekin af velli í síðasta leiknum mínum.“
Ertu hætt í handbolta?
„Ég mun leggjast undir feld í sumar en mér finnst mjög líklegt að þetta hafi verið minn síðasti leikur,“ bætti Stella við í samtali við mbl.is.