Flottar og hugrakkar

Steinunn Björnsdóttir.
Steinunn Björnsdóttir. mbl.is/Óttar Geirsson

„Við erum með góðan kjarna af eldri leikmönnum með yngri og ótrúlega gaman að sjá hvernig þær koma inn í þetta, hrikalegar flottar og hugrakkar,“  sagði Steinunn Björnsdóttir eftir 33:24 sigur á Ísrael á Ásvöllum í dag, í seinni leik forkeppninnar fyrir HM kvenna. 

Margar fengu að spreyta sig í þessum leikjum og Steinunn sagði allt að koma. „Það tekur tíma en mér finnst þetta verkefni um helgina skila ótrúlega góðu, fengum fullt af æfingum saman og góðar tvær vikur sem við höfðum saman.  Náðum þá að stilla saman sóknarleikinn sérstaklega og við fórum aðeins lengra fram á völlinn í vörninni, sem var bara skemmtilegt.“

Ísland vann einnig fyrri leikinn á laugardaginn og Steinunn er ánægð með allt fram að leikjum en líka spennt fyrir að takast á við nýjar áskoranir. „Við vonum auðvitað að það verði dregið vel þegar kemur að mótherja í næsta leik og við ætlum í alla leiki til þess að vinna þá.  Það er líka svo gaman að hafa eitthvað framundan, það er virkilega spennandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert