Ellefti sigurinn í ellefu leikjum

Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fjögur mörk í kvöld.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fjögur mörk í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íslendingaliðið Kolstad hélt í kvöld áfram sigurgöngu sinni í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik og vann þar sinn ellefta sigur í fyrstu ellefu leikjum tímabilsins.

Kolstad tók á móti Kristiansand og vann stórsigur, 39:25. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fjögur marka liðsins og Janus Daði Smárason eitt. Kolstad er með 22 stig og er fjórum stigum á undan Drammen sem hefur leikið einum leik meira.

Drammen vann Nærbö í kvöld, 28:25, þar sem Óskar Ólafsson skoraði tvö marka liðsins.

Örn Vésteinsson skoraði eitt mark fyrir Haslum sem tapaði 29:30 fyrir Sandnes í uppgjöri tveggja neðstu liðanna og situr eftir á botninum með tvö stig.

Í úrvalsdeild kvenna steinlá Volda, undir stjórn Halldórs Stefáns Haraldssonar, gegn Molde á heimavelli, 22:38. Dana Björg Guðmundsson, Katrín Tinna Jensdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir skoruðu eitt mark hver fyrir Volda sem er í 10. sæti af 12 liðum með 4 stig.

Axel Stefánsson hafði betur í þjálfaraslag við Elías Má Halldórsson þegar Storhamar vann Fredrikstad 27:22 á útivelli. Alexandra Líf Arnarsdóttir skoraði ekki fyrir Fredrikstad. Storhamar er í þriðja sæti deildarinnar með 9 stig en Fredrikstad er með 6 stig í sjöunda sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert