Hefði viljað vera elskaður þegar ég þurfti mest á því að halda

„Þetta var aðeins sagan mín á yngri árum,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Björgvin Páll, sem er 37 ára gamall, var erfitt barn og fékk að heyra það, þegar hann var í áttunda bekk, að það yrði aldrei neitt úr honum þegar hann yrði eldri.

Hann fann sig hins vegar vel í íþróttum og var í silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum í Peking og þá vann hann til bronsverðlaun með landsliðinu á Evrópumótinu í Austurríki árið 2010.

„Þó svo ég hafi verið elskaður og dáður þegar ég tók á móti medalíunni á Ólympíuleikunum þá hefði ég viljað vera meira elskaður og dáður þegar ég var krakki,“ sagði Björgvin.

„Þá þurfti ég mest á því að halda því það vill enginn vera erfiður og það vill enginn vera lagður í einelti,“ sagði Björgvin Páll.

Viðtalið við Björgvin Pál í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is