Bikarinn í Mosfellsbæ eftir ótrúlegar sviptingar

Lið Aftureldingar með bikarinn að leik loknum.
Lið Aftureldingar með bikarinn að leik loknum. mbl.is/Óttar Geirsson

Afturelding er bikarmeistari karla í handknattleik í annað sinn í sögu félagsins eftir ótrúlegan sigur gegn Haukum í úrslitaleik í Laugardalshöll í dag.

Leiknum lauk með eins marks sigri Mosfellinga, 28:27, en liðið varð bikarmeistari í fyrsta sinn árið 1999.

Hafnfirðingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins.

Árni Bragi Eyjólfsson kom Aftureldingu á blað eftir sjö mínútna leik og minnkaði muninn í 1:3 en Haukar voru áfram sterkari aðilinn og náði fjögurra marka forskoti eftir 13 mínútna leik þegar Ólafur Ægir Ólafsson kom þeim í 7:3.

Hafnfirðingar náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, 11:6, en Mosfellingar náðu að laga stöðuna undir lokin og Igor Kopishinsky minnkaði muninn í tvö mörk, 13:15, þegar mínúta var eftir af fyrri hálfleik og þannig var staðan í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn fór af stað með miklum látum og líkt og í fyrri hálfleik voru það Haukar sem skoruðu fyrsta markið.

Liðin skiptust á að skora eftir þetta og Igor Kopishinsky minnkaði muninn í eitt mark, 17:18, þegar að tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Mikið jafnræði var með liðunum eftir þetta og þau skiptust á að skora. Staðan var 23:22, Haukum í vil, þegar tæplega tíu mínútur voru til leiksloka.

Birkir Benediktsson jafnaði metin fyrir Aftureldingu í 23:23 þegar átta mínútur voru til leiksloka og Þorsteinn Leó Gunnarsson kom Mosfellingum yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar rúmlega sjö mínútur voru til leiksloka með frábæru skoti, 24:23.

Þorsteinn Leó kom Aftureldingu svo þremur mörkum yfir, 28:25, þegar tvær mínútur voru til leiksloka.

Haukum tókst að minnka muninn í eitt mark og þeir fengu tækifæri til þess að jafna leikinn á lokasekúndunum en Jovan Kukobat varði og Afturelding fagnaði sigri.

Igor Kopishinsky átti stórleik fyrir Aftureldingu, skoraði 10 mörkn en Guðmundur Bragi Ástþórsson var markahæstur hjá Haukum með 6 mörk.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Haukar 27:28 Afturelding opna loka
60. mín. Guðmundur Bragi Ástþórsson (Haukar) skoraði mark Guðmundur minnkar þetta í eitt mark!
mbl.is