Ég elska allt við Mosó

Gunnar Malmquist Þórsson fagnar bikarmeistaratitilinum.
Gunnar Malmquist Þórsson fagnar bikarmeistaratitilinum. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég gekk til liðs við Aftureldingu árið 2014 og maður er búinn að leggja ansi hart að sér,“ sagði Gunnar Malmquist Þórsson, leikmaður Aftureldingar, í samtali við mbl.is eftir 28:27-sigur liðsins gegn Haukum í úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik í Laugardalshöll í dag.

„Við höfum alltaf verið hársbreidd frá þessu og svo datt þetta í dag. Ég er ótrúlega glaður og núna er ég bara að reyna njóta augnabliksins. Við náðum að snúa leiknum okkur í hag og svo kom augnablik sem þeir gátu jafnað.

Sem betur fer datt þetta með okkur í dag, loksins. Við töpum boltanum í síðustu sókninni og þeir hefðu getað jafnað. Þeir nýta ekki færið sitt og Afturelding er bikarmeistari árið 2023 sem er frábært,“ sagði Gunnar.

Eins gott að njóta

Stuðningsmenn Aftureldingar voru frábærir í stúkunni í dag og studdu afar þétt við bakið á liðinu.

„Ég elska allt við Mosó og þetta er bara fjölskyldan mín. Við gerum þetta saman allir sem einn. Það eina sem ég ætla að gera í kvöld er að njóta augnabliksins. Maður er orðinn aðeins gamall og þú veist ekki hvort þú færð að upplifa þetta aftur þannig að það er eins gott að njóta þess,“ bætti Gunnar við í samtali við mbl.is. 

Það var hart tekist á í leiknum í dag.
Það var hart tekist á í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is