„Verðum að svara í eitt skipti fyrir öll“

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, segir Sunnu Jónsdóttur til í dag.
Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, segir Sunnu Jónsdóttur til í dag. mbl.is/Óttar

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var mættur aftur á hliðarlínuna í dag eftir að hafa tekið út tveggja leikja bann. Hann var afskaplega glaður í bragði eftir að bikarinn fór á loft í Laugardalshöll en ÍBV vann Val í bikarúrslitaleik, 31:29.

„Ég er búinn að vera að tala um að Hanna hefur ekkert unnið, Sunna er með einn titil og Birna einn en það er allt og sumt. Við verðum að stíga upp sem alvöru lið þegar mótlætið er á okkur og svara núna í eitt skipti fyrir öll,“ segir Sigurður.

„Mér fannst ég í hálfleik eiga Birnu inni. Mér fannst ég eiga Sunnu inni líka og jafnvel Hönnu. Þær sýndu í seinni hálfleik hvers lags gæðaleikmenn þær eru og kláruðu þetta eins og alvöru gellur.“

Stórkostlegar í seinni hálfleik

Þið komuð gríðarlega vel stemmdar til leiks og létuð ekki á ykkur fá að missa Mörtu út með rautt spjald. Þið voruð alveg frábærar í dag. 

„Já, alla vega fyrir utan síðustu tíu til fimmtán mínúturnar í fyrri hálfleik þegar var mjög erfiður kafli á okkur. Það var gífurlegt sjokk að einn besti leikmaður í deildinni fái rautt spjald og ég þannig séð með óreynda markmenn. En já, við vorum stórkostlegar í seinni hálfleik.“

Hrafnhildur Hanna var frábær í liði ÍBV og þá voru Birna Berg Haraldsdóttir og Sunna Jónsdóttir atkvæðamiklar. Ólöf Maren Bjarnadóttir kom inn í mark ÍBV í stað Mörtu Wawrzynkowska og stóð sig virkilega vel.

Ofsalega ánægður og stoltur

„Ólöf kom sterk inn. Hún er nýbúin að eiga barn og er að koma inn í þetta. Hún er gamall unglingalandsliðsmarkvörður og hún á bjartan feril framundan hjá ÍBV. Hún varði til dæmis þrjá bolta hér í restina sem skiptu lykilmáli. Ég var ofsalega ánægður og stoltur af henni og stelpunum,“ segir Sigurður Bragason, þjálfari nýkrýndra bikarmeistara ÍBV.

mbl.is