Við erum ekki orðnar saddar

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fagnar marki í dag.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fagnar marki í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Sunna Jónsdóttir voru virkilega ánægðar með deildarmeistarartitilinn sem þær unnu sér inn með ÍBV í dag er liðið vann Selfyssingar í Olísdeild kvenna.

Sigurinn gerði það að verkum að Valskonur geta ekki komist upp fyrir ÍBV í deildinni, ekki frekar en önnur lið deildarinnar. ÍBV hefur unnið 20 leiki í röð hérlendis og eru því langbesta lið landsins um þessar mundir.

41:27 voru lokatölur í dag en 10:0 kafli ÍBV um miðbik síðari hálfleiks gerði úti um leikinn þar sem munurinn fór úr sex mörkum í sextán mörk. Hrafnhildur Hanna skoraði ellefu mörk í dag gegn sínum gömlu félögum, þrátt fyrir að hafa verið tekin úr umferð mest allan leikinn og þá gerði fyrirliði ÍBV, Sunna sjö mörk.

„Þetta venst mjög vel,“ sagði Sunna, en hún hefur tekið við tveimur bikurum á síðustu átta dögum.

„Í dag og allt tímabilið er það liðsheildin sem skilar sigrunum, við erum allar að skila okkar og við erum búnar að vinna vel fyrir þessu allt tímabilið,“ sagði Hrafnhildur.

Þetta var eins og áður segir 20. sigurleikur liðsins í röð, hver hefur verið lykillinn að því að halda sigurgöngunni á lífi?

„Við erum með ótrúlega gott lið, það eru allar búnar að leggja mjög hart að sér og við eigum þetta skilið. Það er góð blanda í hópnum og frábær liðsheild, 20 leikir í röð er alveg ótrúlegt. Við höfum verið að taka einn leik í einu og einn dag í einu, það hefur gert okkur kleift að bæta okkur jafnt og þétt. Ég er ótrúlega stolt og ánægð með þetta,“ sagði fyrirliðinn, Sunna.

Eftir tapið á móti Val í október, sem er síðasta tap liðsins, vann liðið eins marks sigur á Haukum, gátu þær ímyndað sér þá að þær yrðu í þessari stöðu sem þær eru í dag?

„Við létum okkur dreyma og vorum með háleit markmið, én ég bjóst ekki við því að vinna tvo bikara á átta dögum. Það er ótrúlegt og ótrúlegur árangur, en eins og ég segi þá eigum við þetta mjög skilið og höfum lagt hart að okkur,“ sagði Sunna sem er ánægð með sína liðsfélaga.

Liðið hefur bætt sig jafnt og þétt á tímabilinu, er það eitthvað sem þið finnið?

„Klárlega, það hefur verið mjög mikill fókus í liðinu, við erum að taka eitt í einu og hafa gaman líka með. Það er ótrúlega gaman í þessum hóp og þessi blanda af fókus og gleði er að hjálpa okkur að halda þessum standard sem við höfum verið með undanfarið,“ sagði Hrafnhildur Hanna.

Það hefur liðið langur tími hjá liðinu án þess að vinna titil, síðasti titill ÍBV í kvennaflokki í handknattleik kom árið 2006 þegar liðið varð Íslandsmeistari en síðast varð liðið deildar- og bikarmeistari árið 2004. Nú koma tveir í röð, það er ágætis breyting.

„Við erum klárlega að uppskera, veturinn í vetur hefur verið draumavetur, við höldum okkur samt á jörðinni og erum þakklátar líka. Ég hef verið hérna í fimm ár og þetta hefur verið draumurinn síðan ég kom, loksins kom að því. Við höfum verið óheppnar með meiðsli síðustu ár en þessi vetur hefur verið frábær,“ sagði Sunna.

„Við erum ekki orðnar saddar, ætlum að halda áfram að vinna vel í okkar málum. Við ætlum að mæta tilbúnar í úrslitakeppnina, hvenær sem að hún byrjar, við bíðum spenntar eftir því,“ sagði Hrafnhildur Hanna.

Mætingin í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja í dag var til fyrirmyndar, Vestmannaeyingar hafa sýnt liðinu mikinn stuðning.

„Þetta er ótrúlegt, magnað og ólýsanlegt. Þetta er svo ótrúlega skemmtilegt og við upplifum þetta svo mikið á eigin skinni síðustu helgi í bikarkeppninni þegar hópur fólks kom með okkur og svo sigldum við heim. Aftur í dag, þetta er okkar sterkasta vopn,“ sagði Sunna að lokum.

mbl.is