Aron mögulega leikið síðasta Meistaradeildarleikinn

Aron Pálmarsson hefur mögulega leikið síðasta leikinn í Meistaradeildinni.
Aron Pálmarsson hefur mögulega leikið síðasta leikinn í Meistaradeildinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

GOG tryggði sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta með 32:24-stórsigri á Aalborg í einvígi tveggja efstu liða dönsku úrvalsdeildarinnar.

Aalborg vann fyrri leikinn 30:28, en GOG-menn voru mun sterkari í kvöld. Aron Pálmarsson lék ekki með Aalborg vegna meiðsla. Landsliðsfyrirliðinn skiptir yfir til FH eftir leiktíðina og gæti því hafa leikið sinn síðasta leik í Meistaradeildinni á ferlinum.

Fyrr í dag vann Veszprém 38:33-heimasigur á Pick Szeged í einvígi tveggja bestu liða Ungverjalands. Veszprém vann fyrri leikinn 36:23 og var leikurinn í kvöld formsatriði. Bjarki Már Elísson komst ekki á blað hjá Veszprém í kvöld.

Veszprém mætir pólska liðinu Kielce í átta liða úrslitum, en Haukur Þrastarson er samningsbundinn félaginu. Hann er frá keppni vegna meiðsla. GOG mætir spænska stórliðinu Barcelona í átta liða úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert