Erum í þessu til að skemma partíin

Andri Már með boltann í kvöld.
Andri Már með boltann í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Andri Már Rúnarsson átti afar góðan leik fyrir Hauka er liðið vann 27:24-heimasigur á ÍBV í fjórða leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta á Ásvöllum í kvöld. Staðan í einvíginu er nú 2:2 og ráðast úrslitin í oddaleik á miðvikudagskvöld.

„Vörnin var að gera sitt og hjálpa Aroni mikið, sérstaklega þegar við skoruðum lítið seinni hluta seinni hálfleiks. Þá héldum við í vörnina og héldum forskotinu,“ sagði Andri um leikinn við mbl.is.

„Auðvitað er brjáluð stemning hérna, en maður passar sig að halda haus eftir tap í fyrstu tveimur leikjunum. Við höfum farið vel yfir það og pössum okkur núna að halda haus,“ bætti hann við.

ÍBV komst í 2:0 í einvíginu, en Haukarnir hafa jafnað metin með tveimur sigrum í röð.

„Við höfum unnið í okkar málum. Okkur leið ekki vel í stöðunni 2:0, en einvígið var ekki búið. Á meðan það er von, þá höldum við áfram að berjast. Núna er þetta komið í oddaleik, sem allir vilja, og það er langskemmtilegast,“ sagði hann og hélt áfram:

„Þetta eru langskemmtilegustu leikirnir sem maður spilar og þess vegna er maður í þessu. Það var frábær mæting hjá báðum liðum. Við erum í þessu til að skemma partíin og við ætlum að halda því áfram,“ sagði Andri Már.

mbl.is