Kristrún hætti líka við og skrifaði undir hjá Fram

Kristrún Steinþórsdóttir í leik með Fram á nýafstöðnu tímabili.
Kristrún Steinþórsdóttir í leik með Fram á nýafstöðnu tímabili. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Kristrún Steinþórsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild Fram. Þar með er ljóst að ekkert verður af félagaskiptum hennar til Selfoss.

Í síðasta mánuði tilkynnti Selfoss um komu Kristrúnar frá Fram og Lenu Margrétar Valdimarsdóttur frá Stjörnunni, þar sem kom fram að báðar hefðu þær skrifað undir tveggja ára samning.

Eftir að Selfoss féll óvænt úr úrvalsdeildinni eftir tap fyrir ÍR í oddaleik um laust sæti í deildinni breyttust hins vegar forsendur.

Fram tilkynnti í gær að Lena Margrét væri snúin aftur til uppeldisfélagsins og hafi skrifað undir tveggja ára samning og í dag var tilkynnt að Kristrún myndi halda kyrru fyrir.

Kristrún hefur leikið með Fram frá árinu 2019 og verið liðinu mikilvæg á þeim tíma, þar sem liðið stóð til að mynda uppi sem Íslandsmeistari á síðasta ári.

„Ég þekki Fram vel og kann vel við mig hjá félaginu. Þegar úrslitin í deildinni lágu fyrir kom ekkert annað til greina en að vera hér áfram. Liðið er sterkt og ég sé fyrir mér að við munum geta átt mjög gott tímabil,“ sagði hún í tilkynningu frá handknattleiksdeild Fram.

„Kristrún er ógnar sterkur varnarmaður, góður liðsfélagi og mikilvægur hlekkur í liðinu okkar. Að halda henni er mjög mikilvægt og það gleður mikið að hafa hana áfram hjá okkur,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, í tilkynningunni.

mbl.is