Íslenski hesturinn á sér merka sögu

Því verður ekki mótmælt að á Íslandi hefði ekki verið hægt að komast af án hestsins. Landið var vegalaust með öllu og frá því fyrstu menn námu hér land gátu þeir notað hestinn til að komast á milli staða, draga að timbur og reiða hey og eldivið heim í hús. Börnin voru jafnvel á stundum reidd á milli bæja í pokum sem festir voru á klyfbera hestanna og meira að segja í síðustu vegferðinni var líkkistunni komið fyrir á baki hestsins og reidd þverbaks til kirkju.“

Þannig svarar Kristinn Hugason þegar hann er spurður hvernig saga hests og þjóðar hefur fléttast saman í gegnum aldirnar. Kristinn hefur verið forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins á Hólum í Hjaltadal frá árinu 2015 en setrið hóf starfsemi árið 2001 og hefur haldið bæði fjölbreyttar og fræðandi sýningar í gegnum árin.

Á Landsmóti hestamanna 2018 mun Sögusetrið frumsýna nýja sýningu sem fjallar um það hlutverk sem íslenski hesturinn lék á fullveldisöld. „Við opnuðum aðra sýningu á síðasta landsmóti á Hólum sem heitir Uppruni kostanna og fjallar um helstu ættfeður og ættmæður íslenska hrossastofnsins eins og hann er erfðalega samansettur í dag, en núna beinum við sjónum okkar að sögu hestsins og hrossaræktar frá 1918 til 2018,“ útskýrir Kristinn en sýningin fékk styrk frá Afmælishátíð fullveldis Íslands og er ætlunin að koma sýningunni fyrir til varanlegrar varðveislu í Skagafirði auk þess sem hún verður gerð aðgengileg á heimasíðu Söguseturs íslenska hestsins.

„Sýningin er í formi nk. sagnarefils sem búið er að setja fallega upp og prenta á dúk sem er rétt um hálfur annar metri á hæð og tæpir fimmtán metrar á lengd. Þar má sjá tvær tímalínur sem segja annars vegar frá helstu viðburðum á fullveldisöldinni í þróun hestamennsku og hrossaræktar og hins vegar frá helstu áhrifavöldum erfðaframfara stofnsins. Á reflinum er fjöldi merkilegra ljósmynda sem í senn lýsa tíðarandanum og sýna hvernig hestamennskan þróaðist á liðinni öld, og loks myndagallerí sem sýnir þá framtíðarsýn sem við höfum fyrir íslenska hestinn.“

Með rætur í Mongólíu

Íslenska hestkynið á sér merkilega ræktunarsögu og mótaðist stofninn bæði af ytri aðstæðum og af verkum ræktenda sem beindu kyninu á ákveðna braut. Kristinn segir að það hafi ekki verið fyrr en upp úr aldamótunum 1900 að farið var að stunda kynbætur á íslenska hestinum að einhverju marki. „Önnur hrossakyn höfðu verið ræktuð af mikilli útsjónarsemi um margra alda skeið en í meginatriðum hafði íslenski stofninn þróast með náttúruvali,“ segir Kristinn og bætir við að erfðarannsóknir sýni að rætur íslenska stofnsins liggi alla leið til Asíu. „Hann virðist blóðskyldur mongólska hestinum sem skýrist af ferðum víkinga í austurveg. Síðan blandast inn hestakyn frá bresku eyjunum en skyldleiki við þá hesta sem finnast í dag í Vestur-Noregi er minni en margur hefði trúað fyrirfram. Saga þjóðarinnar og einangrun verður síðan til þess að stofninn helst tiltölulega hreinn.“

Kristinn segir að á sínum tíma hafi hugmyndir verið á kreiki um að flytja inn hross að utan en aldrei komið til framkvæmda, m.a. vegna þess hve skilyrði voru erfið fyrir stóra hesta sem höfðu verið ræktaðir fyrir allt aðrar aðstæður. „Þá hafði verið sett innflutingsbann á búfé, m.a. vegna þess að landbúnaðurinn hafði brennt sig hörmulega á innflutningi á sauðfé sem bar fjárkláða til landsins.“

Þegar kynbætur fóru síðan af stað voru ekki allir á einu máli um hvort ætti að leggja áherslu á að gera íslenska hestinn að góðum reiðhesti eða öflugum dráttarhesti, eða jafnvel rækta tvö aðskilin kyn með ólíka eiginleika. Kristinn segir að um örstutt skeið hafi verið mörkuð sú stefna að leggja áherslu á vinnueiginleika stofnsins: „Það breyttist svo skömmu seinna með vélvæðingu landbúnaðarins og í stað þess að þurfa að stóla á hestinn til að draga vinnuvélar tóku bændur traktorinn í sína þjónustu. Á meðan stofnar vinnuhesta í öðrum löndum höfðu verið ræktaðir í árhundruð varði þetta tímabil aðeins í nokkur ár hér á landi og hafði lítil sem engin áhrif.“

Kristinn segir það ekki lítið afrek hversu góðan stofn hefur tekist að rækta hér á landi á ekki lengri tíma. „Ræktunarsaga íslenska hestsins er alveg einstök: hefst með nær ókynbættum stofni sem hafði þróast með náttúruvali en þróast yfir í góðan sporthest sem stenst samjöfnuð við hvaða hestakyn sem er af sinni stærð. Líka merkilegt hvernig okkur tókst að vernda stofninn og margir sem óttuðust þegar landbúnaðarjepparnir og traktorarnir birtust í sveitunum að hesturinn væri búinn að vera og jafnvel myndi þurfa inngrip frá stjórnvöldum ef stofninn ætti ekki að deyja út. En þá rís upp fylking hestamanna, ekki síst í bæjunum, sem hélt áfram að hlúa að íslenska hestinum, efla hann með ýmsum hætti og finna honum nýtt hlutverk í tæknivæddu samfélagi. Árangurinn fer ekki á milli mála og er hestamennska í kringum íslenska hesta núna orðin alþjóðlegt sport.“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »