Landsmót gengið vel hingað til

Frá keppni í A-flokki á aðalvellinum í morgun.
Frá keppni í A-flokki á aðalvellinum í morgun. Ljósmynd/Nína Guðrún Geirsdóttir

Forkeppnum í öllum flokkum á Landsmóti hestamanna fer nú senn að ljúka en milliriðlar í barnaflokki munu eiga sér stað síðdegis.

Í  sérstakri forkeppni í ungmennaflokki í gær varð efstur Atli Freyr Maríönnuson á Óðni frá Ingólfshvoli með einkunnina 8,69. Honum fast á hæla var Bríet Guðmundsdóttir á Kolfinni frá Efri-Gegnishólum með 8,66.

Þá lauk einnig sérstakri forkeppni í B-flokki í gær þar sem efstur varð Nökkvi frá Syðra-Skörðugili með einkunnina 8,99 en hann er Landsmótsmeistari frá 2016. Næstur varð Ljósvaki frá Valstrýtu með 8,93 og þriðji Hátíð frá Forsæti II með 8,84. Forkeppni í A-flokki er enn í gangi og lýkur nú síðdegis.

Á kyn­bóta­vell­in­um fara fram dóm­ar á 6 og 7 vikna hryssum fyrri part dags og 4 vikna stóðhestum síðdegis. Í kvöld hefjast fyrri umferðir kappreiða í 150 metra og 250 metra skeiði.

Að sögn Áskels Heiðars Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra Landsmóts, hefur mótið gengið áfallalaust fyrir sig hingað til. Tölvukerfið datt út í gær í einhvern tíma en var það komið í lag í dag. Að sögn Heiðars er þetta tvennt ólíkt, að halda landsmót á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. „Þegar mótið er haldið á Hólum eins og fyrir tveimur árum þá er meira um að fólk sé komið til að vera allan tímann, þú ert ekkert að skjótast í burtu. Þá dvelja mikið fleiri á tjaldstæðinu eðlilega. Þegar mótið er hér verður meiri breytileiki milli daga, fólk getur kíkt í einn og einn dag og það er meiri sala á helgarpössum. Fyrir norðan var hryggjarstykkið sala á vikupössunum.

Það seldist vel inn á svæðið í gær þrátt fyrir veður og ljóst að fólk ætlar ekki að láta veðrið á sig fá. „Þetta er allt saman í góðum gír og við erum full bjartsýni fyrir helgina, eigum jafnvel von á sól. En við tökum bara hverjum degi eins og hann kemur og þetta hefur rúllað vel.“

Bjarni Sveinsson hefur hér nýlokið keppni í A-flokki á Huldu ...
Bjarni Sveinsson hefur hér nýlokið keppni í A-flokki á Huldu frá Vetleifsholti 2. Ljósmynd/Nína Guðrún Geirsdóttir
mbl.is