Firnasterkt fjórðungsmót hófst í gær

Adrían frá Garðshorni á Þelamörk og Daníel Jónsson leiða í …
Adrían frá Garðshorni á Þelamörk og Daníel Jónsson leiða í B-flokki gæðinga. Brynja Gná Heiðarsdóttir

Fjórðungsmót vestlenskra hestamanna hófst í gær í blíðskaparveðri í Borgarnesi. Mótið fór vel af stað en forkeppni er lokið í B-flokki gæðinga, ungmenna, barna og unglinga.

Í B-flokki er sýnt fet, hægt tölt, brokk, stökk og greitt tölt.

Á sunnudaginn lauk Íslandsmótinu i hestaíþróttum á Hólum í Hjaltadal, einhverjir knapar sem kepptu þar létu ekki líða langt á milli stríða og voru strax mættir aftur í hnakk í Borgarnesi. Íslandsmótið er íþróttamót en fjórðungsmótið er gæðingamót, er því um ólíkar áherslur að ræða og einkunnir ekki samanburðarhæfar. Í einfölduðu máli þá er einblínt á hæfileika hestsins á gæðingamótum en á íþróttamótum einblínt á tæknina, samspil knapa og hests. 

Eftir forkeppni í opnum flokki er Daníel Jónsson efstur með einkunnina 8,81 á hestinum Adrían frá Garðshorni á Þelamörk. Efst í ungmennaflokki er Freydís Þóra Bergsdóttir sem situr Ösp frá Narfastöðum, með einkunnina 8,47.

Barnaflokkur og unglingaflokkur voru ákaflega sterkir í forkeppni. Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal á hestinum Freyði frá Leysingjastöðum er efstur inn í úrslit í unglingaflokki með einkunnina 8,60 sem hefði jafnvel nægt til að koma honum í úrslit í opnum flokki.

Í barnaflokki er Hjördís Halla Þórarinsdóttir efst á hestinum Flipa frá Bergsstöðum með einkunnina 8,44. 


Alendis TV sér um beina útsendingu frá mótinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert