Serbar ekki í vandræðum með Kostaríka

Aleksandar Kolarov fagnar frábæru aukaspyrnumarki sínu.
Aleksandar Kolarov fagnar frábæru aukaspyrnumarki sínu. AFP

Serbía lagði Kostaríka að velli, 1:0, í fyrsta leik liðanna í E-riðli heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í dag. Leikurinn fór fram í borginni Samara og var þetta í fyrsta sinn sem þessi tvö lönd mættust í knattspyrnuleik.

Fátt var um fína drætti framan af leik. Serbar voru sterkari aðilinn en þeim gekk illa að skapa sér afgerandi færi og ógna Keylor Navas í marki Kostaríka. Það átti þó aðeins eftir að breytast í síðari hálfleik.

Aleksandar Mitrovic átti fyrsta dauðafæri leiksins stuttu eftir hálfleik þar sem Navas tók heldur betur á honum stóra sínum og varði frábærlega.

Stuttu seinna eða á 56. mínútu var ísinn brotinn. Serbar fengu aukaspyrnu eina 25 metra frá marki og Aleksandar Kolarov smellti boltanum yfir vegginn og í hornið með hnitmiðuðu skoti með vinstri fætinum. Glæsilegt mark.

Þó mörkin hafi ekki verið fleiri voru yfirburðir Serba þó nokkrir gegn þunglamalegu og slöku liði Kostaríka. Serbía fer því á topp E-riðilsins en síðar í dag mætast hin tvö liðin; Brasilía og Sviss.

Keylor Navas var besti maður Kostaríka í dag og á …
Keylor Navas var besti maður Kostaríka í dag og á hér eina af nokkrum markvörslum sínum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert