Dónalegur Maradona hneig niður

Maradona var vægast sagt æstur þegar Rojo skoraði.
Maradona var vægast sagt æstur þegar Rojo skoraði. AFP

Diego Maradona fagnaði vel og innilega er landi hans Marcos Rojo tryggði Argentínu sæti í 16-liða úrslitum á HM í Rússlandi í kvöld. Rojo skoraði sigurmark Argentínu í 2:1-sigri á Nígeríu og nægði það Argentínumönnum til að enda í 2. sæti riðilsins og skilja Ísland og Nígeríu eftir með sárt ennið.

Maradona, sem er álitinn einn besti knattspyrnumaður sögunnar, fagnaði með því að veifa löngutöng á báðum höndum. Hvers vegna er óljóst, en slík hegðun er auðvitað talin afar dónaleg. Maradona hefur verið áberandi á leikjum Argentínumanna og vakti það athygli að hann reykti vindil er Ísland og Argentína mættust í 1. umferð. 

Maradona varð hins vegar of æstur í fagnaðarlátum sínum því hann þurfti læknisaðstoð eftir leik, eftir að hann hneig niður. Sem betur fer reyndist það ekkert alvarlegt og var goðsögnin fljót að jafna sig. 

Argentína mætir Frakklandi í 16-liða úrslitunum og má búast við að Maradona haldi áfram að vera áberandi. 

Maradona var áberandi.
Maradona var áberandi. AFP
mbl.is