Falcao sakar Geiger um hlutdrægni

Falcao lýsir hér vanþóknun sinni á dómgæslu Geiger.
Falcao lýsir hér vanþóknun sinni á dómgæslu Geiger. AFP

Kólumbíski framherjinn Radamel Falcao hefur sakað bandaríska dómarann Mark Geiger um hlutdrægni þegar Kólumbía tapaði fyrir Englandi í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í gær. „Hann dæmdi alltaf með Englendingum,“ sagði Falcao eftir leik við fréttamenn.

Af 36 aukaspyrnum sem dæmdar voru í leiknum voru 23 dæmdar á Kólumbíu og af þeim 8 spjöldum sem fóru á loft var 6 af þeim beint að Kólumbíumönnum. 

Geiger dæmdi einnig vítaspyrnu á kólumbíska miðjumanninn Carlos Sanchez sem England skoraði úr.

„Mér finnst það skrýtið að þeir setji bandarískan dómara á leikinn. Til að segja þér sannleikann þá vakna margar spurningar. Hann talaði bara ensku. Ef hann var í einhverjum vafa dæmdi hann Englendingum í vil. Það er skammarlegt að þetta gerist í 16-liða úrslitum.“ 

Falcao er ekki fyrsti leikmaðurinn sem gagnrýnir Geiger á mótinu. Marokkó kvartaði einnig undan Geiger en eftir leik Marokkó og Portúgal sagði Nordin Amrabat leikmaður Marokkó að Geiger hefði beðið Ronaldo um treyjuna hans:

„Ég veit ekki hverju Geiger er vanur, en hann var mjög hrifinn af Cristiano Ronaldo. Pepe sagði mér í fyrri hálfleik að hann hefði beðið Ronaldo um treyjuna. Hvað er að gerast hérna? Við erum á heimsmeistaramótinu en ekki í einhverjum sirkus.“

 FIFA og Geiger hafa neitað þessum ásökunum.

mbl.is