Gary Lineker grét eftir leikinn

Gary Lineker var með tárin í augunum eftir að England ...
Gary Lineker var með tárin í augunum eftir að England sigraði Kólumbíu í vítaspyrnukeppni. AFP

Fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins, Gary Lineker, sagðist í sjónvarpsútsendingu hjá BBC hafa verið með tárin í augunum eftir að England sigraði Kólumbíu í vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.

„Ég skammast mín ekkert fyrir það en ég var með tárin í augunum eftir vítaspyrnukeppnina. Þetta er ólýsanlegt. Ég hef alltaf velt fyrir mér hvernig það er að vinna vítaspyrnukeppni á heimsmeistaramóti. Tilfinningin er sérstök. Við höfum beðið svo lengi.“

Alan Shearer, sem var einnig í settinu, hrósaði landsliðsþjálfaranum Gareth Southgate sem klúðraði vítaspyrnu á Evrópumótinu 1996.

„Southgate fór í gegnum þetta á EM 96, ég er glaður fyrir hans hönd. Ég veit hversu mikið hann hefur lagt í að æfa vítaspyrnur, huglæga þáttinn, markvissar æfingar til að setja boltann í netið alveg eins og þeir hafa æft það. Þetta var magnað kvöld.“  

mbl.is