Sven-Göran varar Englendinga við

Sven-Göran Eriksson varar Englendinga við að það sé erfitt að ...
Sven-Göran Eriksson varar Englendinga við að það sé erfitt að skora á móti Svíþjóð. AFP

Fyrrverandi  landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu, Sven-Göran Eriksson, segir að Englendingar muni lenda í vandræðum með að skora gegn Svíum en þjóðirnar mætast í 8-liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar á laugardaginn.

Svíar hafa aðeins fengið á sig tvö mörk en þau komu bæði á móti Þjóðverjum í riðlakeppninni. Á sama tíma hafa Englendingar verið í vandræðum með að skapa sér færi í opnum leik en sjö af níu mörkum þeirra hafa komið eftir föst leikatriði eða úr vítum.

Í viðtali við Expressen sagði Eriksson: „Englendingar munu lenda í vandæðum með að skora gegn Svíþjóð.“ 

„Ég held að Svíþjóð muni vinna. Sem Svíi vona ég að Svíþjóð sigri. Miðað við hvernig þeir eru að spila trúi ég því að þeir geti komist alla leið.“

Í viðtali við Sky Sports News sagði Eriksson að Englendingar væru að gera stór mistök ef þeir héldu að leikurinn gegn Svíþjóð yrði auðveldur:

„Þetta verður líka erfiður leikur fyrir Svía en að skora gegn þeim er mjög erfitt. Englendingar hafa einstaklinga eins og Kane og Sterling sem geta gert ótrúlega hluti. En þegar ég segi þér að það sé erfitt að sigra Svíþjóð þá er það sannleikurinn. Ítalir reyndu það í umspilsleikjunum í 180 mínútur án þess að skora. Þjóðverjar skoruðu aðeins úr aukaspyrnu í enda leiksins. Ég hlakka til leiksins. Þetta verður 50/50 leikur.“

mbl.is